100 milljónir danskra króna til náms- og starfsráðgjafar

 

Tilraunaverkefni, sem danska menntamálaráðuneytið hóf árið 2006 og fólst í því að hafa upp á fyrirtækjum sem lítið hafa sinnt sí- og endurmenntun, hefur reynst árangursríkt. Í verkefninu hafa fyrirtækin tekið þátt í þemafundum og hópvinnu um gerð áætlana á færniþróun starfsmanna þeirra. Starfsmenn hafa farið í gegnum einstaklingsbundið raunfærnimat og í framhaldinu tekið þátt í námskeiðum sem eru sérsniðin að þeirra þörfum. Nú hefur verið ákveðið að setja 100 milljónir danskra króna til verkefnis þar sem þátttakendum, sem vilja fá ráðgjöf varðandi sí- og endurmenntun,  er beint til 22 nýrra „fullorðinsfræðslutengslaneta“ um allt land. Þessi 22 tengslanet samanstanda af fræðslustofnunum sem bjóða upp á fullorðinsfræðslu og endurmenntun. Næstu tvö ár eiga þessar stofnanir að styrkja náms- og starfsráðgjöf í fyrirtækjum og meðal einstakra starfsmanna. Með 100 milljónunum á að tryggja þeim beint aðgengi að náms- og starfsráðgjöf vegna sí- og endurmenntunar.
Lesið meira á www.uvm.dk