100 milljónir til íslenskukennslu fyrir útlendinga

 
Ríkisstjórnin ákvað þann 10. nóvember að leggja fram 100 milljónir króna til íslensku kennslu fyrir útlendinga á næsta ári. Lagt er til að stofnað verði til sérstaks verkefnis um íslenskukennslu fyrir útlendinga með verkefnisstjórn sem í sitji fulltrúar menntamálaráðherra og félagsmálaráðherra. Markmið verkefnisins verði að koma íslenskukennslu fyrir útlendinga í það horf sem vel verði við unað. Á næstu þremur árum verði lögð áhersla á 200 tíma nám sem mætir þörfum byrjenda í íslensku, óháð bakgrunni þeirra. Í framhaldi af því verði stefnt að því að byggja ofan á þetta námsframboð svo öllum þeim sem hér setjast að verði gert kleift að öðlast nokkra færni í íslensku. Menntamálaráðuneyti hafi yfirumsjón með og beri ábyrgð á þeirri íslenskukennslu fyrir útlendinga sem greidd yrði úr ríkissjóði.