Evrópsk könnun á viðhorfum sem varða málefni aldraðra

 

Evrópusambandið tileinkar árið 2012 öldruðum; virkni á efri árum og samstöðu milli kynslóða (e. European Year for Active Ageing and Solidarity between Generations) Íslendingar eru þátttakendur í verkefnum og viðburðum sem því tengjast. Í tilefni ársins ákvað framkvæmdastjórn ESB að kanna viðhorf Evrópubúa til ýmissa þátta sem tengjast málefnum aldraðra. Niðurstöðurnar í svokallaðri Euorobarometer-könnun voru kynntar fyrir skömmu. Spurt var um atriði sem tengjast almennum viðhorfum til eldra fólks, vinnumálum, eftirlaunum og lífeyri, sjálfboðavinnu, stuðningi við aldraða og öruggu umhverfi.
Viðhorf Íslendinga eru að ýmsu leyti frábrugðin viðhorfum annarra Evrópubúa. Tæplega tveir af hverjum þremur aðspurðra Íslendinga segjast vilja halda áfram að vinna eftir að hafa náð eftirlaunaaldri en samkvæmt könnunni á þetta viðhorf mun minna fylgi að fagna hjá öðrum Evrópubúum þar sem aðeins einn af hverjum þremur er þessarar skoðunar. Um 66% Íslendinga segjast taka virkan þátt í starfi félagasamtaka eða vinna sjálfboðastarf á móti 26% annarra Evrópubúa.

Meira: Velferdarraduneyti.is