Fleiri á aldrinum 25-64 með háskólamenntun í fyrsta sinn 2014

Árið 2014 voru háskólamenntaðir 25–64 ára íbúar á Íslandi í fyrsta skipti fleiri en íbúar með menntun á framhaldsskólastigi, eða 60.800, en menntaðir á framhaldsskólastigi voru 59.300.

 
Munurinn er þó innan skekkjumarka. Háskólamenntaðir 25–64 ára voru 37,0% íbúa á Íslandi, 2.000 fleiri en árið 2013. Þá höfðu 43.900 manns í þessum aldurshópi eingöngu lokið grunnmenntun, þ.e. engu námi á framhaldsskólastigi, samkvæmt niðurstöðum úr Vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Það eru 26,7% íbúa og þeim hefur fækkað um 1.500 manns frá fyrra ári. Mikill munur var á menntun íbúa höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar árið 2014. Á höfuðborgarsvæðinu höfðu 21,9% íbúa á aldrinum 25-64 ára eingöngu lokið grunnmenntun en 44,1% höfðu lokið háskólamenntun. Utan höfuðborgarsvæðisins höfðu 35,3% íbúa eingöngu lokið grunnmenntun og 24,1% lokið háskólamenntun.
Sótt frá Hagstofu Íslands