Formennskuáætlun Dana 2020

Græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd – einnig fyrir fullorðna. Megináhersla er á börn og ungt fólk í formennskuáætlun Dana fyrir Norrænu ráðherranefndina 2020, en fullorðnum er ekki gleymt, fullvissa Lise Lotte Toft skrifstofustjóri og Charlotte Romlund Hansen ráðgjafi í danska barna- og menntamálaráðuneytinu okkur um.

 
Charlotte Romlund Hansen og Lise Lotte Toft Charlotte Romlund Hansen og Lise Lotte Toft

Norðurlöndin eiga að vera í fararbroddi í heiminum hvað varðar sjálfbærni og samþættingu. Hvorki meira né minna. Markmiðin í nýrri framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir Norðurlöndin fela í sér þrjú stefnumarkandi áherslumál, grænni, samkeppnishæfari og sjálfbærari Norðurlönd. Fyrsta skrefið í átt að markmiðunum á að taka á formennskutímabili Dana, þar sem menntamál gegna meðal annars mikilvægu hlutverki. Þetta kemur fram í dönsku formennskuáætluninni fyrir árið 2020.

– Norrænt samstarf snýst fyrst og fremst um að við vinnum saman að tilgangsríkum og gagnlegum verkefnum. Að verkefnin skapi virðisauka er sérstaklega mikilvægt, undirstrikar Lise Lotte Toft, skrifstofustjóri alþjóðaskrifstofu barna- og menntamálaráðuneytisins. Hún útskýrir að unnið hafi verið að mótun stefnu fyrir norræna samstafið með virðisauka þeirra að leiðarljósi:

– Síðastliðin þrjú ár hefur verið unnið að því að forgangsröðun norræna samstarfsins, einnig á sviði menntamála og við höldum því áfram, segir hún.

Charlotte Romlund Hansen bætir við:

– Sökum þess hve auðvelt er að gera samanburð á milli Norðurlandanna og að við stöndum frammi fyrir sömu áskorunum getum við líka tekist á við þær í sameiningu. Gott dæmi um það er NVL. Þrátt fyrir frjálslegt skipulag hefur NVL náð árangri vegna þess að uppbyggingin og vinnulagið er sérlega norrænt. Samstarfsnetin taka fyrir ákveðin áþreifanleg viðfangsefni og reyna að leggja fram ráð til þátttökulandanna um hvernig hægt sé að leysa þau – annað hvort á landsvísu eða í breiðara samstarfi Norðurlandanna. Á þann hátt finnst okkur að vinnan skili miklum virðisauka.

Hvað með fullorðna fólkið?

Á formennskutímabili Dana hefst nýtt þriggja ára verkefni: Ungmenni á Norðurlöndum í sjálfbærum samfélögum. Það snýst meðal annað um andlega vellíðan ungs fólks. Ekki er fjallað ítarlega um fullorðinsfræðslu í áætluninni. Að hverju verður sjónum beint árið 2020?

– Í formennskuáætluninni er megináhersla lögð á fáein megin atriði, segir Lise Lotte Toft, sem útskýrir að það sé danska utanríkisráðuneytið sem stýri áætluninni. En hún undirstrikar að það útiloki síður en svo að áhersla sé jafnframt lögð á allt það góða starf sem unnið er um þessar mundir á sviði fullorðinsfræðslu.

En það er nú einu sinni þannig að ef sjónum er einkum beint að ákveðnu efni, þá er það í brennidepli?

– Já. En ef ætlunin er að nota formennskuáætlunina til þess að styðja við NVL, þá ætti að nýta orðin í áætluninni um sjálfbærni og framtíðarlausnir um fullorðna. Vegna þess að það er grundvöllur að fullorðinsfræðslu – að vera undirbúinn undir breytingar og geta lagt af mörkum og tekið þátt í nærsamfélaginu. Þannig telst fullorðinsfræðslan meðtalin í forgangsatriðum formennskuáætlunarinnar segir Lise Lotte Toft.

Stafræn umskipti í brennidepli

Á hvaða sviðum munum við helst verða vör við að fullorðinsfræðslan njóti líka forgangs árið 2020?

– Í stafrænum umskiptum. Þetta er enn sem komið er mjög vítt hugtak, svo í nánustu framtíð verðum við að einbeita okkur að hvernig við getum skýrt það nánar, segir Charlotte Romlund Hansen.

Á síðasta formennskuári Dana 2015 kom NVL á laggirnar neti sem fjallaði um grunnleikni og lagði niðurstöður PIAAC-könnunarinnar frá 2011 til grundvallar. Árið 2017 var komið á vinnuhópi sem einmitt á að fjalla um hvernig hægt er að skýra stafrænu umskiptin betur bæði á Norðurlöndunum og í tengslum við áætlun Evrópusambandsins.

– Grunnleikni nær einnig til lesturs og talnaleikni en sérstök áhersla er lögð á stafrænu umskiptin, segir hún og bendir á skýrsluna sem netið gaf út árið 2019 þar sem bæði er greining og tillögur:

– Og við höfum hugsað okkur að standa vörð um tillögurnar á pólitískum vettvangi í framtíðinni.

Hvernig stöndum við að því á skynsamlegan og snjallan hátt?

Í febrúar býður danska barna- og menntamálaráðuneytið fulltrúum landanna í NVL, EPALE, fullorðinsáætlun Evrópusambandsins og ráðuneytisins til sameiginlegs fundar. Þar verður rætt um tillögurnar og samræður við embættismenn ættu að leiða til viðmiða um hvernig hægt verður í sameiningu að vinna með stafrænu umskiptin.

– Stafræn umskipti eru sannarlega eitthvað sem breytir samfélögum og vinnumarkaði okkar svo við verðum takast á við þetta viðfangsefni og komast að því hvernig við gerum það á skynsamlegan og snjallan hátt í framtíðinni. Mín reynsla er sú að umræða um stafrænu umskiptin eru eins og um sé að ræða risastórt og breitt efni, en við verðum að finna lausnir sem gagnast út í samfélaginu og þess vegna er brýnt að afmarka sviðið, telur Charlotte Romlund Hansen og bendir á að stafræn umskipti séu í samhengi við grunnleikni jafnframt á sviði inngildingar eins og lýðræði og gagnrýnin hugsun, allt svið sem lögð er áhersla á í formennskuáætluninni.

– Þetta eru meðal þeirra gilda sem oft gleymast í evrópsku samhengi. En vegna þess að Norðurlandaþjóðirnar deila mörgum gildum er eðlilegt að þau séu með í norrænni umræðu.

Þegar samstaða hefur náðst um viðmið og tillögur – hver á þá að taka við boltanum?

– Umræður um NVL eru á dagskrá embættismannanefndarinnar í júní. Eftir þann fund geri ég ráð fyrir að fyrir liggi viðmið fyrir áframhaldandi vinnu, bæði innlend og einnig sameiginleg norræn verkefni. Verkefni sem NVL verður ef til vill falið að vinna, segir Lise Lotte Toft.

Danska verkefnið

Á hverju formennskutímabili er nýjum verkefnum hrint úr vör. Þau ná yfirleitt til þriggja ára. Það þýðir til dæmis að áfram verður unnið að verkefnum sem Íslendingar komu af stað og í ár lýkur norska verkefninu um bágstödd börn. Danska verkefnið sem er hafið fjallar um börn og ungt fólk og sjálfbær samfélög og undir það fellur áhersla á velsæld.

Sjálfbærni og velsæld barna og ungmenna nýtur mikils forgangs hjá ráðherrunum. Um þetta er rætt í öllum vestrænum löndum og kannski getum við á Norðurlöndunum komist að því hversvegna svona mikið af ungu fólki er vansælt.

Þess vegna snýst einn þáttur formennskuáætlunarinnar um rannsóknir eða kortlagningu á sviðinu. Og annar þáttur um stjórnmálaumræður. Ráðherrar hvaðanæva af Norðurlöndum koma til Kaupmannahafnar í mars til þess að ræða þetta og í nóvember stendur ráðuneyti rannsókna og menntunar fyrir stórri ráðstefnu um velsæld ungs fólks:

– Ef við lítum til framtíðar og hugsum um áhrif dönsku formennskuáætlunarinnar, gæti verið spennandi ef við gætum sagt, jæja 10.000 börn og ungmenni hafa fengið kennslu um ákveðið efni af norrænum meiði, og á hverju ári eru ennþá haldnir fundir barna og ungmenna á Norðurlöndum sem sækja innblástur í þetta verkefni – og að við höfum orðið margs vísari um börn og ungmenni og velsæld, segir Lise Lotte Toft, skrifstofustjóri alþjóðaskrifstofu barna- og menntamálaráðuneytisins.

Myndatexti: Charlotte Romlund Hansen (tv) og Lise Lotte Toft útskýra að litið sé til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og þar leiki stafræn færni fullorðinna mikilvægt hlutverk, vegna þess að það er brýnt að ekki verið til A- og B-lið á því sviði.

Dönsk áhrif?

Hvernig munu dönsk áhrif norrænu formennskuáætlunarinnar birtast okkur?

– Við höfum lagt ríka áherslu á að það sem gert er sé haldgott og gagnlegt. Og þegar um er að ræða hugmyndir um stefnu og pólitík – til dæmis hvað varðar stafrænu umskiptin – verður að huga að því hvernig hlutirnir eiga að líta út fyrir endanotenda, hvort sem um er að ræða einstaka íbúa eða til dæmis kennarann sem á að kenna fullorðnum. Það snýst um að hafa notandann alltaf í huga til þess að hægt sé að gera raunverulegar prófanir á meðan á ferlinu stendur, segir Charlotte Romlund Hansen, en bætir við að málið sé enn á pólitísku og stefnumótandi stigi:

– Svo þegar árið er liðið munum við ekki hafa náð alla leið til endanotandans. En við stefnum í hans átt og með því að gera raunverulegar prófanir auðveldum við leiðina að markmiðinu. Það er allavega hugmyndin.

Er það að gera hlutina afar áþreifanlega sérstaklega einkennandi fyrir Dani?

– Ég tel það afar norrænt. Það getur verið tilhneiging til að umræða um stefnu og pólitík sé hástemmd og loftkennd. En við verðum að hafa í huga að þetta á að verða að einhverju sem gagnast einhverjum – og hvernig tryggjum við það þá? Brýnt að hafa það hugfast.

Charlotte Romlund Hansen bætir við að á sviði fullorðinsfræðslu eigi Norðurlandaþjóðirnar margt sameiginlegt, meðal annars áherslu á ævinám. Og fjórða heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna – SDG 4 – um sjálfbæra menntun tryggi að hugað verði að menntun fullorðinna:

– Hér á bæ notum við heimsmarkmiðin sem leiðarstjörnu sem við getum borið okkur saman við. Menntunarstig á Norðurlöndunum er hátt, en það sem við getum unnið að er að allir eiga að hafa lokið námi á framhaldsskólastigi – líka fullorðnir. Ekki allir hafa náð því og þá er spurningin hvernig getum við mætt þeim? Og hér komum við aftur að grunnleikninni – sérstaklega stafrænni færni – vegna þess að það er afar brýnt að við endum ekki með A- og B-lið á því sviði, undirstrikar hún.

Góðar hugmyndir endurnýttar

Í áætluninni fyrir 2020 stendur að þróa eigi norræna áætlun um fræðslu og færni til framtíðar? Hvað er átt við með því?

– Það er ekki endilega um að ræða að setja eitthvað nýtt af stað, öllu fremur að koma skilaboðum um allt það góða sem hefur gerst og er að gerast á sviðinu á framfæri, svarar Lise Lotte Toft, skrifstofustjóri alþjóðaskrifstofu barna- og menntmálaráðuneytinu.

Hún segir að nú þegar sé fyrir hendi mikil þekking og reynsla um einmitt fræðslu og hæfni á heimasíðu Norrænu ráðherranefndarinnar. Markmiðið fyrir 2020 er því að skýra betur hvaða áætlanir eru til, hverju þær hafi skilað og hvaða tækifæri felast í til dæmis í Nordplus, Nordplus Voksen, NORDBUK og þvílíku. Vilji maður sjá, hvernig meðal annars NVL hefur fengist við hæfni í framtíðinni, má lesa um það hér.

– Hugmyndin er að við þokum því ofar í forgangsröðina, innblásturinn er sóttur í OECD verkefni sem ber heitið „Education 2030, educating for tomorrow“. Við höfum sagt embættismannanefndinni, sem er ráðgefandi fyrir skrifstofuna, að ekki sé ætlast til að þeir finni upp á mörgum nýungum eða spyrjist fyrir um margt nýtt vegna þess að við eigum nú þegar svo margt gott og búum að góðri reynslu, segir hún.

– Ég fékk mér kaffibolla á meðan ég fór inn á heimasíðuna og las um það, heimasíðan þeirra er mög góð. Þar var hægt að lesa um innleiðinguna sem hófst fyrir nokkrum árum og sjá hvernig hefur gengið – og kannski fagna því örlítið.

Framtíðarsýn fyrir 2020

Formennskuáætlun Dana er fyrsta skrefið í innleiðingu nýrra framtíðarsýnar Norrænu ráðherranefndarinnar um að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims.

* Framtíðarsýnin kveður á um metnað sem leggja á í norrænt samstarf og markar þrjú stefnumarkandi forgangssvið í skýrri stefnu komandi ára um græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd.

* Ný framtíðarsýn og stefnumarkandi áherslur Norrænu ráðherranefndarinnar fela meðal annars í sér að samstarfið verði hnitmiðaðra svo beina megi kröftum og fjármunum að aðgerðasviðum sem skipta mestu máli. Starf Norrænu ráðherranefndarinnar þarf jafnframt að verða árangursmiðaðra og nytsemi þess þarf að vera greinilegri gagnvart almenningi, fyrirtækjum og yfirvöldum.

* Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun eru leiðarljós í starfi Norrænu ráðherranefndarinnar og þau verða einnig í brennidepli á formennskuári Danmerkur.