Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson afhenti Menntaverðlaun atvinnulífsins 2017

Menntaverðlaun atvinnulífsins 2017 voru veitt 2. febrúar á Menntadegi atvinnulífsins. Verðlaunin eru veitt fyrirtækjum sem skara fram úr í menntun, fræðslu og þjálfun starfsfólks.

 

Menntadagur atvinnulífsins er haldinn hátíðlegur í fjórða sinn og var dagskrá dagsins helguð íslenskri máltækni. Af þessu tilefni hélt mennta- og menningarmálaráðherra ávarp þar sem hann sagði m.a.:

„Eigi íslenska að vera lífvænleg þjóðtunga í „þróuðum heimi“ verður hún að geta staðið undir kröfum upplýsingatækninnar. Svo einfalt er það. Við skulum ekki vera svartsýn, en þetta er ótvírætt umfangsmikið viðfangsefni, sem þjóðin þarf að taka sameiginleg á, og verður ekki leyst til framtíðar með áhlaupi, heldur markvissri vinnu allra sem að því koma. Það er skýr vilji íslenskra stjórnvalda að svo verði, og efling íslenskrar máltækni verður því að vera grunnþáttur í því að árangur náist. “

Alcoa Fjarðaál hlaut verðlaun sem menntafyrirtæki ársins 2017 og Keilir – miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs sem menntasproti ársins 2017.