Hæfniþróun fyrir störf og umskipti – reynslan að loknu einu ári með kórónuveiru

Á morgunverðarfundi NVL og Hæfniþróunarstofnunar Noregs fimmtudaginn 27. maí mættu þrír fulltrúar atvinnurekenda- og launþegasamtaka í Danmörku, Svíþjóð og Noregi til þess að miðla reynslu þjóðanna þriggja af vinnu við hæfniþróun og yfirfærslu á tímum faraldursins.

 

Mia Bernhardsen fulltrúi Samtaka iðnaðarins í Svíþjóð og Claus Eskesen fulltrúi launþegasamtakanna 3F i Danmörku eru jafnframt meðlimir í neti NVL um hæfniþróun í og fyrir atvinnulífið sem stóð að útgáfu skýrslu haustið 2020.

Birgitte Jordahl frá norsku launþegasamtökunum Tekna situr í verkefnastjórn fyrir meðal annars Atvinnugeiraáætlun fyrir Olíu, gas og veituiðnaðinn í Noregi, sem er ein af tíu atvinnugeiraáætlunum sem nú eru í gangi. Sveinung Skule, framkvæmdastjóri Hæfniþróunarstofnunar Noregs var fundarstjóri.

Tilboðið verður að vera við hæfi, sveigjanlegt og á forsendum atvinnulífsins

Fulltrúarnir þrír miðluðu reynslu sinni af þríhliðasamstarfi um færniþróun á tímum kreppu. Meðal þess sem áhersla var lögð á, var að með nánu og góðu samstarfi yfirvalda og aðilum atvinnulífsins er vel hægt að skapa viðeigandi tilboð um færniþróun fyrir atvinnugreinar sem hvað verst urðu úti á skömmum tíma.

Mia Bernhardsen greindi frá þeim áhrifum sem faraldurinn hafði haft á vinnumarkaðinn í Svíþjóð. Hún sagði frá nokkrum atvinnugreinum sem höfðu skapað námstilboð til að mæta sínum þörfum. Tilboðin höfðu verið aðlöguð að sveigjanlegu fjarnámi sem hægt er að sækja samhliða vinnu. Nokkrir geirar atvinnulífsins njóta einnig forgangs. Ákveðin smáforrit gerðu þeim (sem skikkaðir höfðu verið í leyfi) kleift að finna tilboð sem hæfðu þeirra atvinnugrein. – Í Svíþjóð unnum við talsvert með samskipti við íbúana. Eitt af nýju slagorðunum er: „Ekki rækta garðinn þinn, ræktaðu frekar færni þína.“

Þetta er í samræmi við reynslu Norðmanna. Birgitte Jordahl kynnti frumkvæði þeirra að atvinnugreinaáætlun fyrir Olíu-, gas og veitufyrirtæki, starfsemi tengda hafinu. Þar eru námstilboð á forsendum greinanna þróuð hratt og sleitulaust. Fyrir hverja atvinnugeiraáætlun er stjórn sem skipuð er fulltrúum aðilum atvinnulífsins. Með tilkomu atvinnugeiraáætlananna hefur verið hægt að sérsníða tilboð að þörfum atvinnulífsins. Birgitte er fulltrúi atvinnugreina þar sem starfsfólkið er hámenntað. – Í atvinnugreinum eins og olíu- og gasiðnaðinum er þörf fyrir sérhæfða færni til þess að framkvæma breytingar í átt að umhverfisvænni framleiðslu og sjálfbærara atvinnulífi, undirstrikaði hún.

Í Danmörku áttu aðilar atvinnulífsins þátt í að veita fólki með stutt nám að baki tækifæri til færniþróunar á meðan á faraldrinum stóð. – Ein af áskorununum sem blasti við þessum hópi var hvatningin til þess að sækja námskeið sagði Claus Eskesen. Í Danmörku tókst aðilum atvinnulífsins í samstarfi við yfirvöld á koma á fleiri nemaplássum á tímum veirunnar árið 2020 en gert hafði verið í venjulegu árferði 2019. Gerðir voru samningar um launauppbætur á námstímanum. Í gegnum þríhliðasamstarfið í Danmörku voru gerðir samningar sem urðu til þess að það var fyrirtækjunum næstum að kostnaðarlausu að taka nema. Með þessu fyrirkomulagi var fýsilegra fyrir fyrirtækin að senda starfsfólkið á námskeið en að senda það í leyfi.– Bæði fagfólk og starfsfólk án fagbréfs tóku þátt í námskeiðum um grunnleikni (lestur, ritun og reikningur), sagði Claus.

Fyrirlesararnir þrír voru á einu máli um að grunnforsenda þess að unnt var að koma á fjölmörgum úrræðum til færniþróunar fyrir fullorðna á tímum heimsfaraldursins væri að fyrir hendi væri öflugt þríhliða samstarf. Þá voru þeir einnig sammála um að samstarfið á tímum kórónuveirunnar hafi sannað að „Norræna módelið“ módelið sem einkennist meðal annars af þríhliða samstarfi og trausti á milli aðila atvinnulífsins og ríkisins, á enn við og er í fullu gildi.

Nánar um norræna módelið hér.

Efni frá vefstofunni er hér