Mikill áhugi á fullorðinsfræðslu á Færeyjum

 

 Um 100 þátttakendur voru á námsstefnu um fullorðinsfræðslu í Þórshöfn þriðjudaginn 29. september. Þeir voru fulltrúar ólíkra menntageira, stjórnvalda, fagfélaga, frjálsra félagasamtaka og annarra hagsmunaaðila. Fulltrúar tveggja yfirvalda staðfestu að það væri meðal markmiða nýju ríkisstjórnarinnar að móta stefnu og koma á kerfi fullorðinsfræðslu.  

Rigmor Dam, mennta- og menningarmálaráðherra og Eyðgunn Samuelsen, félagsmálaráðherra héldu opnunarerindi og ræddu báðar um sýn ríkisstjórnarinnar um nám án aðgreiningar sem byggir á ævimenntun með tengdu og samhæfðu kerfi fyrir fullorðinsfræðslu þar sem náms- og starfráðgjöf og raunfærnimat gegndu mikilvægu hlutverki. Þær undirstrikuðu báðar að samhæfing og breitt samstarf er nauðsynleg forsenda þess að ná markmiðunum. Þá viðurkenndu þær mikilvægi norræns samstarfs, einkum starfs NVL á þessu sviði.   

Aðalfyrirlesari var Antra Carlsen, stjórnandi NVL, hún lagði út af sýn Norrænu ráðherranefndarinnar um samstarf og forgangsröðun á sviði fullorðinsfræðslu. Anders Rosdahl fræðimaður sagði frá niðurstöðum PIAAC könnunarinnar á Norðurlöndunum og hvernig nýta mætti þær, og Hans Pauli Strøm, félagsfræðingur við Hagstofuna á Færeyjum, lýsti einkennum færeyska vinnumarkaðarins og þörf fyrir nýsköpun. Því næst kynntu færeyskir fulltrúar í tengslanetum þau svið sem starfsemi netanna snýst um og hvað þau gætu lagt af mörkum við stefnumörkun og uppbyggingu heildarkerfis fyrir fullorðinsfræðslu á Færeyjum.  Þá tóku við stuttar kynningar frá ýmsum aðilum sem frá ólíkum sjónarhornum veittu yfirsýn yfir stöðu fullorðinsfræðslu og hvernig þeir gætu séð fyrir sér að hún þróaðist í framtíðinni. Fyrirlestrunum fylgdu umræður með uppbyggilegum tillögum og ráðleggingum þátttakenda sem safnað var saman og hafa verið sendar til viðeigandi stjórnvalda sem innlegg og innblástur í vinnu þeirra. Meginniðurstöðurnar voru að það þurfi að móta framvirka menntastefnu fyrir ævimenntun og það er brýnt að koma á kerfi fullorðinsfræðslu og forgangsröðun á sviðinu eigi þátt auknum lífsgæðum og geti á þann hátt fyrirbyggt fólksflutninga frá eyjunum sem er eitt af meginviðfangsefnum samfélagsins.