Norðmenn hljóta raunfærnimatsverðlaunin 2019 fyrir „Jafnvægislist“ eða „Balansekunst“ á norsku

 

"Balansekunst" er líkan og aðferð sem hægt er að nota til þess að lýsa færni sem einstaklingur hefur aflað sér í atvinnulífinu á þann hátt að hægt er að bera kennsl á hana í víðara samhengi við atvinnulífið og formlega menntakerfið. Í verkefninu er sjónum einkum beint að smásölu en stofnanirnar sem tóku þátt í því telja að hægt sé að aðlaga aðferðina að allskonar vinnustöðum. Verkefnið var hluti af mótun færnistefnu Norðmanna 2017-2021. 

Norsku atvinnurekendasamtökin Virke áttu frumkvæði að verkefninu og hrintu því í framkvæmd. Fulltrúar Virke sitja í fjölmörgum nefndum sem fjalla um færniþróun í Noregi. Yfir 21.000 fyrirtæki í Noregi eru félagar í samtökunum. Fulltrúi Virke átti jafnframt sæti í norræna samstarfsnetinu Færni í og fyrir atvinnulífið sem NVL starfrækti á árunum 2014-2017. Í lokaskýrslunni lagði netið áherslu á hlutverk raunfærnimatsins og staðfestu að „Raunfærnimatið og færniskírteinin veita einstaklingum aukin tækifæri til hreyfanleika á vinnustað eða milli vinnustaða. Atvinnurekandi getur fengið skýra mynd af því hvaða færni er til staðar og hvaða færni vantar í fyrirtækið og getur notað upplýsingarnar til að hanna áætlun fyrir ráðningar, færniþróun og leiðir til að bæta þá færni sem þegar er fyrir hendi.“

Vídeó frá Raunfærnimatstvíæringnum um „Balansekunst“

Skýrslan um Færni frá sjónahóli atvinnulífsins  (2017)

Nánar um Raunfærnimatstvíæringinn í Berlín 

Lesið grein i Dialogweb um „Tormod Skjerve stöðugur og mikilhæfur „jafnvægislistamaður“