Nýjar tölur frá Hagstofunni um nemendur og námslok við 24 ára aldur

 

Þriðjungur hefur ekki lokið framhaldsskólanámi við 24 ára aldur
Í árganginum 1982 eru skv. tölum Hagstofunnar 4.352 einstaklingar.  Af þeim hafði 2.701 lokið einhverju námi samkvæmt prófaskrá Hagstofu Íslands árið 2006 eða 62,1% árgangsins. Langflestir þeirra höfðu lokið námi á framhaldsskólastigi.

Fjöldi þeirra sem ekki hafa verið skráðir í nám er 224 eða 5,1% árgangsins og rétt tæpur þriðjungur árgangsins eða 1.427 manns hefur verið skráður í nám en ekki lokið því.

Fleiri konur en karlar hafa lokið einhverju námi
Í tölum Hagstofunnar kemur fram að hlutfall kvenna í þessum hópi sem stundað hafa nám og útskrifast er mun hærra heldur en hlutfall karla. Þannig höfðu 96,5% kvenna og 93,2% karla stundað nám á Íslandi og 69,7% kvenna höfðu lokið einhverju námi en samsvarandi hlutfall meðal karla er 55%.

Hlutfall brautskráðra lægra á landsbyggðinni en höfuðborgarsvæðinu
Hlutfall þeirra sem höfðu lokið námi var hærra á höfuðborgarsvæðinu heldur en landsbyggðinni. Mikill munur er á hlutfalli karla sem hafa lokið framhaldsskólastiginu eftir landsvæðum. Þar er hlutfallið lægst á Vestfjörðum eða 36,3% en hæst í Reykjavík eða 57,2. Minni munur er á hlutfalli kvenna sem hafa lokið framhaldsskólastigi við 24 ára aldur eftir landshlutum. Þar er hlutfallið lægst á Suðurnesjum eða 51,1% en hæst á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur eða 69,8%.

Fleiri karlar en konur hafa lokið starfsnámi
Sumir hafa lokið námi af fleiri en einni námsbraut og eru því brautskráningar fleiri en brautskráðir nemendur. Brautskráningar úr bóknámi eru um 60% allra brautskráninga á framhaldsskólastigi og þegar hæsta próf er skoðað er stúdentspróf langalgengasta prófið sem árgangurinn 1982 hefur lokið. Konur hafa brautskráðst í sex af hverjum tíu brautskráningum úr bóknámi á framhaldsskólastigi en karlar í rúmlega sex af hverjum tíu brautskráningum úr starfsnámi.

Nálgast má heftið í heild sinni á vef Hagstofu Íslands:
www.hagstofa.is/Utgafur/Utgafur-eftir-efni/Skolamal