Raunfærnimat og skortur á vinnuafli

Getur raunfærnimat átt þátt í að leysa vandamál vegna skorts á vinnuafli?

 
Foto: www.pixabay.com Foto: www.pixabay.com

Á Færeyjum mælist atvinnuleysi nú sögulega lágt. Aldrei fyrr hefur hlutfall atvinnulausra verið jafn lágt, eða 0.9% í september 2019 í samanburði við 1,3% í september 2018. Þetta veldur umtalsverðum skorti á vinnuafli við fjölda mannvirkja sem unnið er að á Færeyjum um þessar mundir.

Samtök atvinnurekenda sjá fyrir sér vandamál við fyrirhuguð verkefni, bæði hvað varðar mannvirkjagerð en einnig varðandi aðrar atvinnugreinar eins og til dæmis ferðaþjónustu sem er vaxandi. Þess vegna hafa samtök atvinnurekenda farið fram á við yfirvöld að auðvelda innflutning á tímabundnu vinnuafli erlendis frá til þess að mæta bráðum þörfum.

Allt frá 2012 hefur verið unnið markvisst að því að undirbúa raunfærnimatsmódel á Færeyjum að norrænni og evrópskri fyrirmynd. Árið 2014 voru sett lög um raunfærnimat sem veita öllum eldri en 25 ára og með þriggja ára starfsreynslu rétt til að gangast undir mat á raunfærni á móti menntun.

Yrkisdepilin, sem fer með stjórn starfsmenntunar á Færeyjum ber ábyrgð á því að raunfærnimat verði staðlað tilboð á móti öllum námsleiðum.

Breið viðurkenning á raunfærnimati í atvinnulífinu

Miðað við framlög til uppbyggingar á gildu og trúverðugu raunfærnimatsmódeli á Færeyjum, skríður vinnan jafnt og þétt, en hægt fram á við. Stundum reynist erfitt að koma auga á þau litlu framfaraskref og breytingar sem þó verða. Stórum hluta tímans hefur verið varið til þess að skapa skilning á raunfærnimati meðal helstu hagaðila, einkum fulltrúa iðngreinanna og atvinnulífsins, fyrir utan fagnefndirnar sem bera ábyrgð á að tryggja og viðhalda nauðsynlegri færni innan ólíkra greina. Allt útlit er nú fyrir að tekist hafi að afla viðurkenningar á raunfærnimati fyrir flestar námsleiðir lærlinga en það er hagkvæmur kostur bæði fyrir lærlinginn og fyrirtækið.

Raunfærnimat í tengslum við atvinnuleysi

Nokkur hefð er fyrir því á Norðurlöndunum að raunfærnimati sé beitt við skort á atvinnu, það er að segja í tengslum við atvinnuleysi sem afleiðingu t.d. uppsagna og lokun fyrirtækja. Einnig fyrir nýaðflutta og aðkomumenn sem hafa bakgrunnsmenntun sem er frábrugðin gildandi hefðum og menntunar í landinu, þá beinast sjónir að tækifærum og nytsemi raunfærnimats.

Raunfærnimat er því lykill að hreyfanleika og aðlögun bæði fyrir einstaka íbúa og atvinnulífið, þar sem það hefur orðið nauðsynlegt úrræði eins og t.d. í tengslum við skort á vinnuafli, jafnvel þótt að hann sé aðeins talinn tímabundinn.

Útvíkkuð þjónusta náms- og starfsráðgjafa

Í ágúst 2019 var miðstöð ráðgjafar komið á laggirnar á Færeyjum, í þeim tilgangi að veita öllum þeim íbúum sem ekki hafa aðgang að ráðgjöf í skólakerfinu eða öðrum opinberum aðilum, aðgang að ráðgjöf um þróun starfsferils. Ráðgjafarmiðstöðinni var komið á laggirnar af menntamálaráðuneytinu í tilraunaskini. Markmiðið er að undirbúa og þróa módel fyrir æviráðgjöf fyrir alla íbúa. Vinna við raunfærnimat mun efalaust njóta góðs af því fyrirkomulagi æviráðgjafar um þróun starfsferils sem nú er verið að þróa.