Raunfærnimat er mikil hvatning til frekara náms

 
22 konur luku verkefninu Gildi starfa – raunfærnimat fyrir þjónustufulltrúa í fjármálafyrirtækjum þann 22. maí sl. Um er að ræða framhald af samevrópsku Leonardo verkefni Gildi starfa (e. Value of work) sem lauk á síðasta ári og stýrt var af Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.
Með hugtakinu raunfærni er átt við þá færni sem einstaklingur hefur tileinkað sér með ýmsum hætti, s.s. formlegu námi í skóla, starfsnámi, frístundanámi, starfsreynslu, félagsstörfum og fjölskyldulífi. Mat á raunfærni felst í að kortleggja alla þessa færni einstaklings og markmiðið er að hún sé viðurkennd og metin og ekki síður gera hana sýnilega þeim sjálfum og öllum hagsmunaaðilum. Slíkt mat verður oft hvati að frekara námi eða þróun í starfi. Margar af þeim konum sem luku matsferlinu nú, stefna á nám á komandi hausti.
Mímir – símenntun er nú í fyrsta skipti að útskrifa hóp þátttakenda úr verkefninu en vinnan við það hófst í janúar s.l. Þátttakendur í skipulagningu verkefnisins auk Mímis – símenntunar voru Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA), Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) og fjármálafyrirtækin. Þátttakendur voru frá sex fjármálafyrirtækjum; sjö frá Landsbankanum, fimm frá BYR, fjórar frá Kaupþingi, tvær frá Glitni, tvær frá Valitor og tvær frá SPRON.
www.mimir.is