Samráðshópur vegna erfiðrar stöðu á vinnumarkaði

 
Vegna þessara sérstöku aðstæðna sem hafa skapast hefur stjórn Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA) sett af stað samráðshóp vegna erfiðrar stöðu á vinnumarkaði.  Fulltrúar frá ASÍ, SA, Vinnumálastofnun, Starfsmenntaráði, fræðsluaðilum og menntamálaráðuneyti eiga sæti í þessum samráðshópi sem er undir forystu Ingibjargar Elsu Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins. Meginhlutverk samráðshópsins eru:
• að vakta breytingar sem eru að verða og það sem gert er til að bregðast við þeim
• að huga að hvar og hvernig eigi að bjóða og beita þeim úrræðum sem þegar eru til, meðal annars ráðgjöf, raunfærnimati og námi
• að bæta við úrræðum fyrir einstaka hópa og huga að breyttri forgangsröðun í þeim málefnum sem til góða gætu komið fyrir hópinn
Samráðshópurinn mun reyna að kortleggja og finna menntunarúrræði fyrir þá sem lenda í erfiðleikum á vinnumarkaði en markhópur FA eru þeir sem hafa minnsta formlega menntun. Þessi úrræði eru mjög mikilvæg til að bregðast við erfiðri stöðu einstaklinga þannig að aðgengileg fullorðinsfræðsla verði valkostur fyrir þá sem minnsta menntun hafa og missa vinnuna í þeim þrengingum sem ganga nú yfir íslenskt efnahagslíf.