Stefnumótun í menntunarmálum fanga

 
Nefndinni var sérstaklega falið að huga að fjarkennslu gegnum netið, verkmenntun, menntun fanga af erlendum uppruna og þeim hópi fanga sem af ýmsum ástæðum hafa fallið út úr skyldunámi. Skýrslu nefndarinnar fylgir jafnframt skýrsla um íslenska hluta samnorrænnar rannsóknar á menntun fanga sem fangar í afplánun á Íslandi tóku þátt í í október og nóvember 2006.
Nefndin lítur svo á að nám í fangelsi, ásamt öðrum meðferðarúrræðum, gegni lykilhlutverki í endurhæfingu fanga. Hún leggur til að fangar verði hvattir til að nýta tímann í fangelsi til náms og þeim standi til boða kynning á námsmöguleikum, mat á fyrra námi, mat á raunfærni, áhugasviðsrannsókn, aðstoð við gerð námsáætlunar og við að skipuleggja frekara nám. Koma þurfi til móts við þarfir fanga með stutta skólagöngu að baki meðal annars með námskeiðum til að bæta grunnfærni í lestri, stærðfræði og tölvunotkun.
Nefndin leggur til takmarkaða nettengingu í öllum fangelsum og rýmri heimildir í opnum fangelsum.
Bæta þarf aðstöðu til verknáms og starfsþjálfunar í fangelsum og skapa fleiri störf sem geta nýst til starfsþjálfunar. Föngum verði gefinn kostur á starfsþjálfun utan fangelsis að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þá beri að leita til atvinnufyrirtækja í nánasta umhverfi fangelsa um starfsnám fyrir  fanga sem hafa leyfi til náms utan fangelsis.
Hugað verði að íslenskukennslu fyrir erlenda fanga sem dvelja um langan tíma í íslenskum fangelsum og að möguleikum fanga af erlendum uppruna á að stunda fjarnám við menntastofnanir í heimalöndum sínum.
Strax verður hafist handa við að hrinda tillögum nefndarinnar í framkvæmd og fyrsta verkið verður að fela Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi, sem lagt er til að verði móðurskóli í kennslu fanga, að auglýsa stöðu náms- og starfsráðgjafa sem eingöngu vinni að málefnum fanga.
Sjá á (pdf)