Við verðum að læra alla ævi - en hvar og hvernig?

Við vitum það vel, vinnumarkaðurinn mun krefjast þess að við lærum eitthvað nýtt, förum í endurmenntun, já að við lærum alla okkar ævi. En við munum varla setjast á skólabekkinn, tilbúin með penna og stílabók.

 
Vinnustaður framtíðarinnar? Nám og störf fara saman, námskeið um  morguninn, vinna eftir hádegi, leiðsögn með sérfræðingum, náið samstarf milli starfsfélaga, eða nám og starf í sama ferli. Vinnustaður framtíðarinnar? Nám og störf fara saman, námskeið um morguninn, vinna eftir hádegi, leiðsögn með sérfræðingum, náið samstarf milli starfsfélaga, eða nám og starf í sama ferli.

Hinir stafrænu tímar með sjálfvirkni, vélmennsku og aukinni notkun gervigreindar krefst meiri endurmenntunar en áður. Sama á við um “grænu byltinguna”, sem leggur áherslu á nýjar orkulausnir með hjálp hátækni. 

Innviðum er í auknum mæli stjórnað af tölvum sem þarf að forrita og stjórna. Alþjóðavæðing krefst tungumálakunnáttu og hæfni til að vinna í erlendum fyrirtækjum og fjölmenningarlegu umhverfi. 

"Lærðu alla ævi" 

Skilaboðin frá pólitískum aðilum eru skýr. Símenntun verður afgerandi fyrir bæði starfsfólk og vinnuveitendur, en einnig fyrir samfélag sem vill halda samkeppnishæfni. Norski forsætisráðherrann hefur sagt þetta skýrt og skorinort og á fjárlögum fyrir árið 2019 er veitt viðbótarfjármagni til hæfnisumbóta sem bera yfirskriftina "Læra alla ævi". 

Í fjárlagafrumvarpi því sem nú er til umfjöllunar í Stórþinginu segir: 

- "Ríkisstjórnin mun framkvæma hæfnisumbætur þannig að starfsfólk falli ekki út úr atvinnulífinu vegna skorts á hæfni. Ríkisstjórnin leggur til samtals u.þ.b. 130 milljóna NOK viðbót til verkefna sem eru hluti af hæfnisumbótunum. Þetta eru m.a. 37 milljónir NOK til að þróa sveigjanlegar námsbrautir á sviði tækni og stafrænna lausna og 30 milljónir NOK fyrir starfsgreinaverkefni tengdum atvinnugreinum sem eru í sérstakri áhættu varðandi stafræna þróun, áhrif sjálfvirkni og annarrar umbreytinga. 

Fyrirtækin leggja undir

Hæfnismælistika Norsku vinnuveitendasamtakanna (NHO) fyrir 2017 sýnir að meira en helmingur norskra fyrirtækja býr við óuppfyltar hæfnisþarfir.

Um 40 prósent fyrirtækja segja að vegna stafrænar þróunar og aukinnar sjálfvirkni hafi þau meiri þörf fyrir fólk með verkfræðimenntun og annars konar tæknilega menntun. Þetta þýðir einfaldlega frekari menntun starfsmanna eða einnig nýráðninga fólks með mikla menntun. Á sama tíma eru fyrirtækin í óða önn að fjárfesta í tækni og sjálfvirkni. 

Hver þróar endurmenntun? 

Þegar hæfnisþarfirnar aukast og breytast í eðli sínu verða menntastofnanir að fylgjast með. NTNU (Norski tækni- og raunvísindaháskólinn) hefur leitað aðstoðar í rannsóknavísindum í því skyni að bera kennsl á hæfnisþarfir sem koma til í stafrænni þróun á næstu árum. 

Þetta er nauðsynlegt til þess að háskólinn geti þróað nútímalegt og viðeigandi tilboð um endurmenntun. Bráðabirgðasvarið frá Norrænu stofnuninni um nýsköpun, rannsóknir og menntun, NIFU, er skýrt. 

NIFU sér fyrir sér umtalsverða þekkingarþörf hvað varðar stafræna þróun. 

Þessar kröfur eiga sérstaklega við um eftirfarandi atriði: 

- tæknileg færni í upplýsingatækni 

- stjórnun á þróun stafrænna ferla 

- öryggi í upplýsingatækni og persónuvernd

- stafræn fjarvist 

- upplýsingatækni og heilbrigði 

Hér er að finna stór og mikil verkefni fyrir þá aðila sem bjóða upp á menntunartilboð. Þeir verða að bjóða upp á viðeigandi námstilboð sem láta fyrirtækjunum í té starfsfólk sem getur tekið þátt í hinu sjálfvirka og tæknilega flókna atvinnulífi framtíðarinnar. 

Sveigjanleg menntunartilboð 

Menntamálaráðuneytið hefur áttað sig á því að fjármunir eru nauðsynlegir til að þróa viðeigandi og sveigjanleg tilboð fyrir þá sem eru í fastri vinnu og geta ekki tekið sér frí til að setjast á skólabekkinn. Í endurskoðuðum fjárlögum þessa árs segir:   

- Ríkisstjórnin leggur til að auka fjárveitingar um 10 milljónir NOK til þróunar sveigjanlegra tilboða um endurmenntun í stafrænni hæfni og tilboð sem styðja við stafræna þróun. Menntunartilboðin skal þróa í nánu samstarfi við atvinnulífið og eiga að vera hönnuð þannig að þau sé hægt að samkeyra með allt að því fullu starfi, t.d. með skiptingu í áfanga, nám á netinu og að þátttakendur komi saman. 
Þessum áformum verður nú fylgt eftir árið 2019. 

Hvernig lærum við árið 2030? 

Við vitum að atvinnulífið breytist hratt og við vitum að við sem starfsmenn eða frumkvöðlar verðum að fylgja því eftir með því að öðlast stöðugt nýja þekkingu. En við vitum í raun ekki hvernig námsaðstæður og námsumhverfið mun líta út, til dæmis árið 2030. 

MediaHandler (2).jpg  

Við verðum að læra alla okkar ævi, en hvernig eigum við að gera það? Mynd: Torhild Slåtto 

Nýjar menntaleiðir eru þróaðar með flóknum lausnum á netinu, leikjum og vélmennum. Með því að nota námsgreiningu getum við fengið námsferli sem er sérsniðið að þörfum einstaklingsins. Það eru einnig tilboð um mörg opin námskeið á netinu (mooc) þar sem boðið er upp á fjölbreytt úrval af námsgreinum. 

Frumkvöðlar hjá Woolf University í Oxford ætla að þróa "blockchain university" með sömu tækni og er á bak við rafmyntina Bitcoin. Hugmyndin er sú að kennslan fari fram milliliðalaust á milli fagfólks og nemenda, maður á mann, þar sem stjórnasýsla háskólans er numin á brott. Woolf University gefur til kynna að greiðsla fyrir hvern stúdent muni nema 5000 dollurum á ári. 

Þrenns konar atburðarásir fyrir menntun í framtíðinni 

Með loftslagsógninni, óstöðugum pólitískum aðstæðum í mörgum löndum og hraðri tækniþróun, er framtíðarmyndin ófyrirsjáanleg. En við getum látið hugann reika um menntun og nám í framtíðinni. Hér koma þrjár atburðarásir fyrir hvernig námsumhverfið getur hugsanlega litið út í framtíðinni. 

Atburðarás 1: Opið og félagslegt námsumhverfi undir stjórn nemenda. Við lærum saman í opnum hópum, spilum saman, hlustum á fyrirlestra og 
myndbandakynningar á netinu, leysum verkefni, leitum ráða hjá vélmennum, 
skipuleggjum umræðuhópa á netinu, eigum samskipti á samfélagsmiðlum og "veljum" tilboð um menntun eftir þörfum, einnig eftir þörfum vinnuveitandans. 

Atburðarás 2: Einstaklingsbundið sýndarnámsumhverfi undir stjórn nemandans sjálfs, eða hugsanlega líka með aðstoð persónulegs menntunarráðgjafa. Menntunin er byggð eftir einstaklingsbundnum óskum og þörfum. Námskeið eru sótt frjálst á netið, bæði gegn greiðslu og ókeypis. Mooc-ar (massive open online course), leikir og spjallrásir eru mikið notaðar. Ef til vill verður spjallrásakerfið hjá Woolf University með maður-á-mann kennslu vinsæl leið til prófs. Eða kannski verða engin próf. Starfshæfni (employability) og hæfni til tiltekinna starfsverkefna geta orðið viðmið í stað einkunna á prófi. 

Atburðarás 3: Hið ný-hefðbundna námsumhverfi þar sem kennslustofa og fyrirlestrasalur fá endurreisn. Fyrirlestrar og einn-á-marga kennsla verður tekin í notkun í stórum stíl, en með ákveðinni notkun margmiðlunartækni sem skapar möguleika á að vinna með kennslulotur og fyrirlestra á netinu eftir að þeim er lokið í kennslustofu eða fyrirlestrasal. Margir hafa fengið nóg af hinni miklu notkun netsins og flókinnar hátækni. Það verður einskonar fortíðarþrá til tímans fyrir internetið, þar sem kennslustofan og fyrirlestrarsalurinn voru hinn sígildi staður til menntunar. 

Hvað vill nemandinn sjálfur? 

Í leitinni að góðu námsumhverfi og ákjósanlegum námsaðstæðum munu rannsóknir á stúdentum og eigin óskum nemandans verða mikilvægar. Hvað virkar og hvað skapar góðan námsárangur? 

Það er ekki síst mikilvægt að rannsaka endur- og framhaldsmenntun og spyrja spurninga eins og "hvernig starfsfólk geti öðlast nauðsynlega þekkingu og hæfni til að halda þroskandi starfi alla sína ævi”.