Það á að lesa stærðfræði ekki aðeins reikna

Í stað þess að láta nemendur reikna dæmi eftir dæmi í stærðfræðitímum, ætti að leggja mun meiri áherslu á yfirferð yfir texta, en gert er í dag. Það finnst Hannesi Hilmarssyni, stærðfræðikennara við Menntaskólann við Sund allavega, en hann hefur síðastliðin 25 ár nýtt um 80 prósent kennslustunda .

 
Foto: Jeswin Thomas Foto: Jeswin Thomas

Í stað þess að láta nemendur reikna dæmi eftir dæmi í stærðfræðitímum, ætti að leggja mun meiri áherslu á yfirferð yfir texta, en gert er í dag. Það finnst Hannesi Hilmarssyni, stærðfræðikennara við Menntaskólann við Sund allavega, en hann hefur síðastliðin 25 ár nýtt um 80 prósent kennslustunda sinna í að kenna „lestur stærðfræði“. Í stað þess að reiða fram dæmi eftir dæmi fyrir nemendur sína finnst honum mikilvægara að þeir skilji verkefnin. Bókstaflega. Hann bendir á að árangurinn beri þess vitni. Þegar hann byrjaði að kenna var meðaleinkunn í bekk um það bil fimm á skalanum 1-10, en 30 prósent nemenda féllu á prófinu. Nú hefur hann nýlega sent frá sér nemendur í bekk með meðaleinkunnina 9,5 og engin féll.

– Þetta er eiginlega frekar einfalt. Ef þú skilur ekki verkefnið, ertu í vandræðum. Lestur er kraftur sem eflir gáfur þínar og gerir þér kleift að skilja stærðfræði, undirstrikar hann. Þess vegna finnst honum ekki mikilvægt að nemendur finni lausn einhvers ákveðins dæmis. Raunar hefur hann kennsluna alltaf á því að deila út litlu hefti með fullreiknuðum dæmum, útreikningum og útskýringum svo nemendur þurfi ekki að eyða tíma í að skrifa niður eftir töflunni þegar hann fer yfir dæmi. Síðan nýtir hann mestan hluta tímans til þess að tala við nemendur um það sem hin ólíku verkefni snúast raunverulega um. Hann telur meginregluna vera þá að nemendur skuli lesa verkefnið að minnsta kosti fimm sinnum áður en þeir fara að leysa það. Það er ekki fyrr en þá, sem þeir í raun og veru muna aðferðafræðina, þegar þeir standa frammi fyrir samskonar verkefni til dæmis í prófi.

Um Hannes Hilmarsson

Hannes er 64 ára og starfar sem stærðfræðikennari við Menntaskólann við Sund. Hannes er félagsráðgjafi að mennt og hefur meðal annars unnið á geðdeild á spítala áður en hann fór að kenna stærðfræði.

Það sem enginn ræðir um

Lestur í stærðfræði er þáttur, sem ætti að samþætta stærðfræði eftir því sem hún verður flóknari, telur Hannes. Í yngri bekkjum þar sem nemendur læra um tölur, leggja saman, draga frá, margfalda og kynnast smám saman brotabrotum fer lítið fyrir útskýringartextum. En í kring um 13 ára aldurinn gerist sitthvað í stærðfræðidæmunum.

– Eðli verkefnanna breytist og nemendur eiga nú að læra algebru, rúmfræði og reglur. Í stað 50 dæma á blaðsíðu eru þau nú aðeins um fimm. Samskonar fækkun á sér stað við 16 ára aldur þar sem kennslan snýst til dæmis um jöfnur í hnitakerfum. Þá er nauðsynlegt að lesa allt að fimm blaðsíður til þess að geta leyst eitt dæmi. En um það er ekkert fjallað í heimi menntunar. Okkur hefur verið kennt að einblína á verkefnin en gleymum að beina sjónum að því sem liggur til grundvallar sjálfu reikningsdæminu, staðhæfir hann.

Gott ráð er að líta í bókina sem kennt er eftir, útskýrir hann.

– Ef 50 prósent af henni er texti þá ætti 50 prósent af kennslunni að snúast um að lesa stærðfræði. En ef textinn er orðinn 80 prósent af bókinni þá verður að auka lestur texta og yfirferð yfir dæmi.

matematik-skal-laeses-ikke-regnes-text.jpg

Lýsir eftir umbótum á kennslunni

Eftir að hafa kennt nálægt 8.000 manns saknar hann einskonar umbóta á stærðfræðikennslu. Í stað þess að líta á hana sem fag sem snýst um reikningsdæmi, ætti að líta á hana sem textafag til jafns við öll önnur þó með þeirri undantekningu að lesskilninginn á að nýta í þeim tilgangi að leysa reikningsdæmi.

– Stærðfræði er veikburða fag í heimi menntunar, vegna þess að einkenni hennar breytist þrisvar sinnum á nokkurra ára fresti. En enginn ræðir það og við höldum áfram að beina sjónum að sjálfum reikningsdæmunum í eldri bekkjunum á sama hátt og í yngri bekkjunum, þrátt fyrir að yfirbragð verkefnanna breytist og textinn aukist að umfangi.

Þrálát sýn á lausn vandamála í stærðfræðikennslu á jafnframt þátt í að gera kennsluna stirða og leiðinlega, telur hann. Gerist það eykst hættan á að einhverjir nemendur heltist úr lestinni. Skilningurinn eykst aftur á móti með því að skerpa athygli á lestur verkefnanna.

– Á þann hátt eflist bæði sjálfsmat nemendanna og áhugi þeirra á stærðfræði. Ég hef veitt mjög, mjög mörgum sem hafa misstigið sig í stærðfræði einkakennslu í gegnum árin, og það þarf svo lítið til þess að koma þeim af stað aftur. Mikilvægasta verkfærið er í rauninni að fara að líta á stærðfræðibókina sem kennslubók, segir hann.