19/11/2021

Island

Atvinnulíf, Stafræn hæfni

11 min.

Stafræni hæfniklasinn

Tækni er á meðal öflugri drifkrafta í nútíma samfélagsþróun, bæði í opinbera geiranum og atvinnulífinu, kraftur sem hefur áhrif á samkeppnisstöðu samfélaga. Breytingar á tækni eru sífelldar en takturinn er hraðari en við höfum upplifað fram til þessa.

Islands Digitale kompetanseklynge

Stafræni hæfniklasinn

Góðir innviðir og vel menntaðir íbúar

Á hverjum degi þurfum við að beita háþróuðum tæknilegum stafrænum hjálpargögnum í einkalífi og starfi. Þróun stafrænna innviða á Norðurlöndum hefur gengið vel, íbúar eru vel menntaðir og geta tileinkað sér nýja tækni. En það hafa ekki allir náð jafn langt í stafvæðingunni. Hér á landi eru margir sem telja að við höfum ekki fylgt þróuninni jafn vel og aðrir Norðurlandabúar. Þess vegna hafa Samtök verslunar og þjónustu og VR í samstarfi við Háskólann í Reykjavík myndað stafrænan klasa með styrk frá þremur ráðuneytum, nýsköpunar og atvinnumála-, fjármála- og menntamálaráðuneytinu. Markmiðið er að efla stafræna færni, auka meðvitund, skilning á stafrænu umbreytingunni meðal stjórnenda og starfsmanna á vinnumarkaði.

Viðtalið hér á eftir við Evu Karen Þórðardóttur, framkvæmdastjóra klasans, um starfsemina, tilganginn og stefnuna fór að sjálfsögðu fram á Teams. Eva Karen er menntaður kennari en hefur lengst af starfað sem frumkvöðull og hefur stofnað og rekið fyrirtæki fá unga aldri. Síðastliðin tvö ár hefur Eva Karen verið fræðslustjóri Símans.

Varð að takast á við spennandi áskorun

– „Ég bý að langri reynslu af þjálfun, kennslu, ráðgjöf og stjórnun fyrir fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga, sem fræðslustjóri og í gegnum eigið ráðgjafafyrirtæki sem ég hef rekið síðan 2017. Þegar ég lít til baka sé ég greinilega að ég hef verið upptekin við að þróa hæfni og aðstoða fólk við að ná næsta skrefi í átt að markmiðum þess. Þess vegna ákvað ég að segja já takk, þegar mér bauðst að stjórna Stafræna klasanum,“ segir Eva Karen. „En um leið varð ég að spyrja sjálfa mig: Hvers vegna hef ég ekki tekið tillit til þróunar á stafrænni hæfni í vinnu minni með fólki í gegnum tíðina? Mér finnst frábært að fá tækifæri til þess að taka þátt í stafræna hæfniklasanum. Framundan eru fjölmörg ólík og spennandi verkefni, þar sem reynsla mín og þekking gagnast,“ segir Eva Karen.

Af sjónarhóli hæfninnar

– „Þegar hópurinn sem stofnaði klasann velti fyrir sér hvernig þau vildu að nýr framkvæmdastóri nálgaðist viðfangsefnið, komu tvenns konar sjónarhorn til greina; annars vegar að þróa hæfni fólksins eða tæknina hins vegar, þá ákváðu þau að hafa samband við mig. Hvers vegna? Jú, vegna þess að þau töldu að brýnast væri að þróa stafræna hæfni, þau völdu mannlega sjónarhornið. Mörg fyrirtæki hér á landi eru komin vel á veg með stafvæðinguna. Þau hafa mótað stefnu, sett markmið og aflað sér tækninnar, en skortir enn að takast á við flókna verkefnið sem er að þróa stafræna hæfni starfsfólksins til þess að fylgja stefnunni,“ segir Eva Karen.

Stafvæðing felur í sér sköpun og gagnrýna hugsun

„Stafræn umbreyting getur verið erfitt, dýrt og tímafrekt ferli. Erfiðleikarnir koma oftast fyrst, hagræðingin af rekstrinum og samfélagslegur ávinningur síðar. Margir vilja sporna við, halda að málið snúist fyrst og fremst um tæknina og að tæknin hafi af þeim vinnuna. En það er grundvallar misskilningur. Tæknin er aðeins brotabrot, stafræn umbreyting snýst um langtum fleira en tækni. Hún krefst einnig skapandi hugsunar, nýsköpunar og gagnrýnnar hugsunar. Það er þörf fyrir að við teygjum okkur, tileinkum okkur bæði þá hæfni og tækni sem viðfangsefnin sem við erum að fást við krefjast,“ fullyrðir Eva Karen.

Eva Karen
Eva Karen

Stefnan er klár

„Við höfum á síðustu vikum mótað stefnu og stikað leiðina að næsta markmiði, lagt metnaðarfulla dagskrá. Fyrsta skrefið er að kanna hvaða hæfni starfsfólk skortir helst. Okkur langar að gera opna könnun sem byggir á Stafræna hæfnihjólinu sem hefur verið í notkun í um tíma,“ segir Eva Karen og bætir við:

„Hæfnihjólið er gríðarlega umfangsmikið verkfæri, okkur langar að einfalda það og bæta vegna þess að okkur finnst skorta eitt mikilvægt atriði – nefnilega gangrýna hugsun. Það að geta sótt, greint og metið upplýsingar til þess að byggja vel ígrundaða skoðun sem undirstöðu undir aðgerðir. Við erum í samstarfi við Prósent sem er fyrirtæki á sviði markaðsrannsókna um þróun nýs verkfæris. Draumurinn er að þróa stafræna könnun þar sem fyrirtækin geta svarað ýmsum spurningum til þess að komast að því hve langt þau hafa náð við þróun stafrænnar hæfni starfsfólksins,“ segir Eva Karen.

Mikill áhugi

„Við finnum fyrir miklum áhuga fyrirtækja og starfsmanna á að nýta tæknina betur til að geta boðið upp á einstaklingssniðna og samkeppnishæfa þjónustu. Við lifum á spennandi tímum og flestir eru meðvitaðir um þær breytingar sem eiga sér stað. Við sjáum skýra þörf fyrir samstarfsvettvang þar sem hægt er að veita faglega ráðgjöf um stafræn málefni sem tengjast uppbyggingu fyrirtækisins, en einnig um aðstoð við einstaklinga á vinnumarkaði til að efla stafræna hæfni sína. Mikill áhugi er á starfsþróun og fólk virðist fylgjast vel með því sem er að gerast og vilja taka þátt í breytingunum,“ staðfestir Eva Karen.

Klæðskerasniðin fræðsla

„Stafræna umbreytingin hefur opnað ný tækifæri til þess að læra, tileinka sér nýja og nauðsynlega færni, á þann hátt sem hentar hverjum og einum, hvenær og hvar sem er. Nú geturðu sótt fyrirlestra þegar þér hentar, endurtakið eins oft og þú vilt. Hægt er að sameina sveigjanlegt nám á netinu með staðbundnum kennsludögum“, segir Eva Karen og heldur áfram:

„Við munum þróa fjölbreytt tilboð og safna því sem er á markaðinum saman á einn vettvang. Kanna hvar áherslan liggur hverju sinni og skapa safn sem fyrirtæki geta valið úr, notað það sem hentar þeim best“.

Fullorðnir læra ef þeir vilja

„Við verðum að endurhugsa nám í fyrirtækjum og í atvinnulífinu. Ekki þróa námskeið þar sem allir starfsmenn verða að taka sér frí til að taka þátt saman heldur finna út hvar hver og einn stendur og sérsníða tilboð við hæfi. Við verðum að treysta starfsfólkinu fyrir því að það vilji þróa færni sína. Fyrir nokkrum árum réðum við fólk vegna handa þeirra – það þurfti að nota hendurnar til að framleiða. Nú erum við að ráða fólk vegna sköpunar og hugsunar. Eins og staðan er í dag í stafræna heiminum þá geturðu sótt það kennsluefni sem þú þarft, á þann hátt sem þér finnst henta þér best, þú hlustar, þú lest eða sækir fyrirlestra,“ segir Eva Karen framkvæmdastjóri Stafræna hæfniklasans.

Hæfnilistar og hæfnikröfur eru mikilvæg verkfæri

„Þess vegna er svo gott að vera með hæfnilista, þannig að fólk geti séð hvað það þarf að afla sér, hina og þessa hæfni og það er þeirra að komast að því hvernig því hentar að gera það. Fyrirtæki verða að gefa starfsmönnum svigrúm eða gera ráðstafanir. Mikilvægast fyrir fyrirtækin er að skapa lærdómsmenningu innan eigin fyrirtækis. Menningu þar sem forvitni og vilji til að prófa og kanna eitthvað nýtt er fyrir hendi.

Megintilgangurinn

„Helstu verkefni Stafræna hæfniklasans á næstunni eru að auka vitund og skilning á stafrænni umbreytingu, ávinningi og mikilvægi fyrir íslenskt atvinnulíf og samfélag á meðal almennings, ráðamanna í atvinnulífinu og fólks á vinnumarkaði. Mikilvægur hluti af starfsemi okkar verður að flýta fyrir framgangi stafrænnar umbreytingar meðal fyrirtækja og samfélaga með því að efla stafræna hæfni stjórnenda og starfsfólks í íslenskum fyrirtækjum,“ segir Eva Karen og heldur áfram:

„Sinna grunnmenntun og ráðgjöf á fyrstu stigum stafrænnar þróunar. Miðla upplýsingum og efla samstarf. Að tengja saman í gegnum klasann, til að auka og efla upplýsingamiðlun, samstarf og samtal um stafræna þróun og efla um leið þekkingarmiðlun og nýtingu stafrænnar tækni og stafrænnar nýsköpunar milli hins opinbera og einkaaðila.“

Vettvangur til að miðla

„Meðal þeirra verkefna sem við byrjum á næstunni er að skapa vettvang þar sem stjórnendur fyrirtækja geta komið og miðlað af reynslu sinni. Þannig fáum við að heyra hvað tókst vel en líka hvað virkaði ekki, tókst ekki. Við munum fyrst og fremst þjóna markhópnum okkar, sem eru lítil og meðalstór fyrirtæki í verslun og þjónustu. En allir sem vilja leggja sitt af mörkum til að þróa stafræna hæfni er velkomið að nota tækin og vefsíðuna. Þetta snýst um að fá fólk til að taka þátt.“

Kista full af verkfærum

„Annað verkefni er að búa til verkfærakistu fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Miðstöð upplýsinga, ráðgjafar og miðlunar, þjálfunar og náms varðandi stafræna vegferð. Við viljum vera til staðar fyrir þá sem ætla að stíga fyrstu skrefin og líka þá sem eru komnir lengra á leið. Við hvetjum alla til að hafa samband til að hjálpa okkur að skapa það sem fyrirtæki og starfsmenn þurfa. Með öðrum orðum, við erum til staðar fyrir þig,“ segir Eva Karen Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Stafræna hæfniklasans.

Nánar um Stafræna hæfniklasann á www.stafraent.is

Nyeste artikler fra NVL

Male speaker presenting at a table with a "Nordic Network for Adult Learning" presentation projected on a screen in the background.

06/09/2024

Norden

9 min.

Valladolid, Spain on June 27-28, The Nordic Network for Adult Learning (NVL) participated in the European Basic Skills Network (EBSN) annual conference, focusing on ‘Upskilling and Reskilling for the Twin Transition: Digital and Green Transformation’.

Kvinde i mørkt jakkesæt, der står foran et vindue og smiler.

02/09/2024

Norge

9 min.

Undersøkelser i Norge viser at ni av ti ønsker å leve mer bærekraftig, men hvordan? Først av alt har vi behov for kunnskap for å gjøre de beste valgene. Deretter trenger vi handlekraft for å stå imot kjøpepress, moter og rådende holdninger. Det kreves mot til å velge bærekraftig.

To ældre mænd sidder og arbejder sammen på en bærbar computer, hvoraf den ene holder en smartphone.

29/08/2024

Finland

7 min.

Nu finns det hjälp att få när man vill skapa trygga digitala miljöer. Koordinatorn Sonja Bäckman som hjälper äldre i Finland är en av dem som ska börja testa NVL:s Digitala Toolkit. – Vi vill ge våra seniorer självkänsla och visa att de klarar sig i dagens samhälle och att de är värdefulla medborgare, säger hon.

Share This