Tilhneigingin hefur þróast um árabil. Ungu fólki sem þjáist af streitu og þunglyndi fjölgar, mörg upplifa þrýsting frá samfélaginu. Málefnið hefur verið til umfjöllunar um langt skeið, en ekki í sömu hæðum og þegar umræðan um vanlíðan ungs fólks hófst fyrir alvöru haustið 2022. Þá gáfu fræðimenn við Setur fyrir æskulýðsrannsóknir, (d. Center for Ungdomsforskning, CEFU) við Álaborgarháskóla út bókina „Vanlíðan ungs fólks í ljósi hraða, frammistöðu og sálfræðilegra útskýringa“ sem byggir á röð djúpviðtala við ungt fólk í vanlíðan og megindlegri greiningu á handahófsúrtaki 2.080 Dana á aldrinum 16 til 25 ára.
– Við höfum fjallað um þetta í mörg ár, en ein af ástæðunum fyrir því að aukinni áherslu að þessu sinni, var sú að í þessari bók var sjónum einnig beint að ungu fólki á gráa svæðinu. Áður höfum við einbeitt okkur að ungu fólki í mikilli vanlíðan. Við gerum það líka hér, en líka að breiðari hópi, segir Noemi Katznelson, en hún er prófessor og yfirmaður í Setri fyrir æskulýðsrannsóknir.
Ný viðkvæmni
Í bókinni kynna rannsakendur fjölda niðurstaðna úr rannsóknarverkefni um „nýja viðkvæmni“. Það er hins vegar fjarri því að ungt fólk sem er í hættu af þekktum orsökum eins og fátækt og erfiðum félagslegum aðstæðum sé horfið. Þvert á móti hefur þetta unga fólk almennt bara átt enn erfiðara uppdráttar.
Við þetta bætist breiðari hópur sem þrífst ekki. Þau tileyra ólíkum þjóðfélagshópum og vanlíðan þeirra brýst meðal annars fram þar sem þau upplifa þrýsting, streitu og kvíða. Það eru nokkrar ástæður fyrir þessu.
– Við verðum að tala varlega um vanlíðan heillar kynslóðar ungs fólks. Jafnframt verðum við að taka alvarlega að við sjáum nýjan hóp ungs fólks sem er varnarlaust. Skólastarfið snýst of mikið um frammistöðu og markmiðastjórnun, hraðinn á öllum sviðum lífsins hefur vaxið og ungt fólk horfir í auknum mæli inn á við og upplifir að þurfa að breyta sjálfu sér ef eitthvað er erfitt í umheiminum. Það leitar að lausnum innra með sér á sálfræðilegan hátt frekar en í heiminum í kring,“ útskýrir Noemi Katznelson.
Flestum líður vel
Í hluta umræðunnar hefur, að sögn prófessors, verið gefið til kynna að meirihluti ungs fólks líði illa. Sem betur fer er það ekki satt.
– Þetta er tiltölulega stór hópur en flestir upplifa ekki vanlíðan, segir Noemi Katznelson.
Tölurnar úr könnun CEFU frá 2019 sýna einnig að þeir sem tilheyra stærsta hópnum líður vel. Það er 29 prósent. Næst stærsti hópurinn með 27 prósent upplifir þrýsting en þrífst samt. En aðrar tölur valda áhyggjum. Þriðji stærsti hópurinn, 17 prósent, er ungt fólk sem upplifir eða hefur upplifað sálrænar áskoranir, 16 prósent passa inn í flokkinn „Ungt áhyggjufullt fólk undir þrýstingi,“ en síðustu 11 prósentin kljást við „flóknar áskoranir“.
Vandamál tengd vanlíðan ungmenna eru langt í frá bara danskt fyrirbæri.
– Á heildina litið er Danmörk ekkert frábrugðin hinum Norðurlöndunum hvað varðar velferð ungs fólks. En við þekkjum ekki muninn og líkindin í smáatriðum, þannig að það felast mörg tækifæri í samstarfi þvert á Norðurlöndin, svo að við getum borið saman og fengið nánari svör við því hvort vandamálin séu eins konar grunnskilyrði sem orsakast af lífsstíl hins vestræna heims, eða hvort þau kunni að snúast um sérstaka stjórnunarhætti – t.d. í menntaheiminum, segir hún.
Óvíst hvort umræðan er til bóta
Það getur virst yfirþyrmandi að ráða bót á vandamálunum tengdum ótal þáttum sem spila saman á mismunandi hátt, því hvar á að hefjast handa? Sumt er einfaldara en annað útskýrir Noemi Katznelson.
– Erfitt hér og nú að hafa áhrif á menningarlegar aðstæður – eins og til dæmis hvernig við tölum hvort um annað, segir hún.
Skipulagi lífs ungs fólks er hinsvegar hægt að breyta
– Við getum breytt hlutum eins og reglum um samfélagsmiðla, mennta- og atvinnustefnu og jafnvel líka heilbrigðisstefnu, segir hún.
Hvort aukin áhersla á sviðið leiði til bættrar líðan ungs fólks er erfitt að svara, telur Noemi Katznelson.
– Það fer mikið eftir því hvernig við nálgumst sviðið og til hvaða pólitísku aðgerða verður gripið. Eigum við bara að stöðva blæðingarnar eða hvað leiðir það af sér? Óánægja snýst um svo margt og því skipta viðbrögðin sköpum, segir hún og svarar því játandi að mikil áhersla á vanlíðan ungs fólks geti í sjálfu sér valdið vanlíðan. Það þýðir hins vegar ekki að við eigum að þegja yfir vandamálunum því það er sannarlega þörf á aðgerðum.
– Það felst ákveðið jafnvægi í því að koma auga á og skapa svigrúm fyrir einhvern sem á erfitt, og hins vegar að forðast að eiga þátt í að skapa vanlíðan. Ungt fólk getur næstum fundið fyrir því að það sé eitthvað að þeim ef það á ekki erfitt, svo það leitar að einhverju innra með sér, segir Noemi Katznelson.