10/2007 NVL Frettir

 


NMR

Vinnustaðanám: forsendur, stefnumörkun/aðferðir og árangur

Vel skipulögð sí- og endurmenntun fyrir alla í atvinnulífinu skiptir verulegu máli fyrir einstaklinginn, vinnustaðina og fræðslustofnanirnar og fyrir þá aðila á vinnumarkaði sem áttu frumkvæði að þessu framlagi til menntunar.
Í því tilliti er vinnustaðanám tilboð sem lofar góðu. Færniþróun og notkun færni haldast í hendur í þessari kennsluaðferð.
Í skýrslunni segir frá rannsókn sem fór fram á Norðurlöndunum. Í rannsókninni var leitað eftir þáttum sem virka vel í vinnustaðanámi: þáttum sem leggja grunn að góðu námi og gefa mynd af bestu aðferðinni við vinnustaðanám. Í skýrslunni er bent á nauðsyn þess að náið samstarf milli fræðslustofnana og vinnustaða sé forsenda fyrir því að vel takist til, í hverju tilfelli fyrir sig, hvað varðar bestu aðferðina og góðan árangur.
Skýrsluna er hægt að sækja á síðu Norrænu ráðherranefndarinnar: 
www.norden.org/pub/sk/showpub.asp?pubnr=2007:576
E-post: Antra.Carlsen(ät)cfl.se
NVL

Möguleikar fullorðinna á starfsmenntun á Norðurlöndunum

Á Norðurlöndunum er það forgangsmál að bjóða fullorðnum námsmönnum upp á starfsnám því námið getur stytt leiðina að atvinnu eða áframhaldandi námi á hærra skólastigi.
NVL's tengslanetið um formlega fullorðinsfræðslu (NVL-norrænt tengslanet um nám fullorðinna) fékk vorið 2007 það verkefni af SVL (Stýrihópi norrænu ráðherranefndarinnar um fullorðinsfræðslu) að gera yfirlit yfir möguleika fullorðinna til starfsmenntunar á Norðurlöndunum. Tilgangurinn fólst, fyrst og fremst, í því að lýsa möguleikum fullorðinna og aðgangi að starfsmenntun á Norðurlöndunum með tilliti til 
* laga 
* stofnana/skipuleggjenda  og
* fjármagns 
Yfirlitið nær yfir framhaldsskólastigið (upper-secondary vocational training) og meistaranám starfsnámsskóla (post upper-secondary vocational training). Nám á háskólastigi var ekki tekið með. Til þess að lýsa flóknu ferli nemandans á leiðinni  – frá fundi með fræðslustofnun/námsráðgjafa að markmiðinu, t.d. atvinnu eða áframhaldandi námi – hafa verið skráð nokkur einkennandi tilfelli (cases). Skýrslan er aðgengileg á dönsku, norsku, ensku og sænsku.
E-post: Nils.Friberg(ät)kristianstad.se
Danmark

Frumkvöðlaátakið – nýsköpun og framkvæmdir

Danska menntamálaráðuneytið vill með Frumkvöðlaátakinu beina sjónum sínum að nýsköpun og frumkvæði, á öllum stigum menntakerfisins.
Átakinu er beint til kennara, sem hafa dug og þor til þess að prófa nýjar leiðir, kjark til þess að gerast frumkvöðlar og brydda upp á nýbreytnistarfi í kennslunni, sem eflir sköpunarkraft nemenda, nýsköpunar- og framkvæmdahæfni. Sjónarhorninu er beint að nýsköpunarstarfi skóla og stofnana og að þessir aðilar leggi verkefninu lið með því að gera kennurum kleift að vinna að slíku verkefni.. 
Frumkvöðlatímaritið er hluti af þessu átaki og í nýjasta tölublaði þess eru margar góðar tillögur að því hvernig hægt er að ýta undir nýsköpun og frumkvæði í skólakerfinu. Í tímaritinu er greint frá raunverulegum dæmum  um nýsköpun og frumkvæði þar sem getið er verkfæra og aðferða sem stjórnendur geta nýtt sér við að ýta úr vör skólum og menntastofnunum sem leggja áherslu á nýsköpun.
Lesið meira á slóðinni www.uvm.dk/07/p2.htm?menuid=6410
Fyrr, í sama átaki, hefur verið gefin út ”Innovationskraft på professionshøjskoler”.  Útgáfuna er hægt að hlaða niður af slóðinni http://pub.uvm.dk/2007/innovationskraft/
E-post: Maria.Marquard(ät)skolekom.dk
Danmark

Gagnabanki um þróunarverkefni - innblástur aö nýjum verkefnum.

Gagnbankinn veitir aðgang að upplýsingum um ekki færri en 5.000 þróunarverkefni sem eru styrkt af Menntamálaráðuneytinu.
Í gagnabankanum eru verkefni úr grunnskólum, bók- og starfsnámi framhaldsskólanna, starfstengdu námi (EUD, SOSU o.fl.), menntatilboðum atvinnulífsins (AMU)  og öðru framhaldsnámi. Þar með inniheldur gagngrunnurinn allar námsleiðir sem standa nemendum til boða. Hægt er að fylgjast með því hvaða verkefni eru í gangi í menntastofnunum í Danmörku og fá hugmyndir um hvernig hægt er að laga sams konar verkefni að mismunandi skólum. Það var megintilgangur samstarfsins milli Menntamálaráðuneytisins og UNI•C við uppsetningu gagnabankans. Í gagnabankann er hægt að sækja raunverulegan innblástur og koma á samböndum við aðila þróunarverkefna.  
Hlekkur að gagnabankanum er hér www.fou.emu.dk
E-post: Maria.Marquard(ät)skolekom.dk
Mer om: projekt
Danmark

Náms-og starfsráðgjafar geta nú hafist handa við að styrkja raunfærnimat í alþýðufræðslu

22 reyndir náms- og starfsráðgjafar úr alþýðufræðslu geta nú hafist handa við raunfærnimat í alþýðufræðslu og annars staðar í atvinnulífinu. Þeir eiga m.a. að vera færir um að þjálfa og styðja kennara og aðra sem ekki hafa bakgrunn sem náms- og starfsráðgjafar. Þessir 22 er fyrsti hópurinn sem hefur farið í gegnum tilraunaþjálfun sem raunfærnimatsráðgjafar. Verkefnið er fyrsta skrefið í endurmenntun náms- og starfsráðgjafa við raunfærnimat og vottun.
Link til DFS
E-post: Maria.Marquard(ät)skolekom.dk
Finland

Sterkur háskóli á Austur-Finnlandi

Tveir háskólar á Austur-Finnlandi, háskólarnir í Joensuu og í Kuopio verða sameinaðir í Háskóla Austur-Finnlands. Hinn nýi háskóli tekur til starfa árið 2010.
Háskólarnir í Kuopio og Joensuu hafa áður átt í samstarfi. Þeir hafa, gegnum tíðina, unnið saman að ýmsum rannsóknaverkefnum, verkefnum í kennslufræði, mati og nemendaskiptum. Með sameiningunni verður þjónusta háskólanna á einum stað og stjórnun auðveldari. Einnig eykst fjölbreytni námsleiða fyrir stúdentana.
Sameiginlegt stjórnskipulag, fyrir deildir og stofnanir, verður lagt fram einkum í hagfræði-, félags- og náttúruvísindum.
Nánari upplýsingar eru á slóðinni
www.minedu.fi/etusivu/arkisto/2007/2211/resume.html
E-post: Carola.Lindholm(ät)vsy.fi
Island

Frumvarp um símenntun í undirbúningi

Menntamálaráðherra hefur ákveðið að hefja vinnu við undirbúning frumvarps um sérlög fyrir fullorðinsfræðslu/símenntun.
Síðastliðið haust skilaði verkefnisstjórn um fullorðinsfræðslu/símenntun skýrslu til ráðuneytisins þar sem meðal annars var lagt til að sett verði lög sem tryggja fullorðnum einstaklingum sem hyggjast snúa aftur til náms rétt til að ljúka námi við hæfi á framhaldsskólastigi.
Í ráðuneytinu hefur verið farið vandlega yfir tillögur verkefnisstjórnarinnar. Í framhaldi af því hefur menntamálaráðherra ákveðið að láta vinna frumvarp til laga um fullorðinsfræðslu/símenntun. Ákveðin undirbúningsvinna mun fara fram í ráðuneytinu en haft verður samráð við hagsmunaaðila á síðari stigum um samvinnu og aðkomu þeirra að þessu mikilvæga verkefni.
Sjá vefrit menntamálaráðuneytisins
www.menntamalaraduneyti.is/media/MRN-pdf_Vefrit/24_2007.pdf
Anna Vilborg Einarsdóttir
E-post: anna(ät)frae.is
Island

Virk samfélagsþátttaka frá sjónarhóli símenntunar

Boðið var til kynningar og umræðna um vald, lýðræði og virka samfélagsþátttöku á málþingi í Norræna húsinu föstudaginn 16. nóvember sl. Að málþinginu stóð NVL á Íslandi sem er norrænt tengslanet um nám fullorðinna og Leikn, samtök fullorðinsfræðsluaðila á Íslandi.
Tilefni þessa málþings var m.a. að vekja athygli á safnritinu DEMOS og gera tilraun til að verða kveikja að umræðu um vald, menntun og lýðræði í okkar samfélagi.   
DEMOS verkefnið byrjaði í Danmörku árið 2006 með norrænum þankabanka sem hafði það að markmiðið að tengja saman rannsóknir á völdum og lýðræði við kennslufræði og reynslu alþýðufræðslunnar. Bókin DEMOS er afrakstur þankabankans, nokkurs konar hvatning og framlag til áframhaldandi umræðu um þetta áhugaverða málefni og til styrktar lýðræðinu. Í framhaldinu hefur opin og breið umræða farið fram um vald, lýðræði og virka samfélagsþátttöku á málþingum og ráðstefnum á öllum Norðurlöndunum.
Fyrirlesarar voru John Steen Johansen, ritstjóri DEMOS og talaði hann um
Power, Democracy and Active Citizenship – Challenges for the formal and the non formal adult education in the Nordic countries. Aðalsteinn Baldursson Verkalýðsfélagi Húsavíkur og nágrennis talaði um Fullorðinsfræðslu í atvinnulífinu. Ása Hauksdóttir frá MENTOR er málið og Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir Öllum heimsins konum sögðu frá verkefninu Félagsvinir – MENTOR er málið. Hulda Ólafsdóttir Mími-símenntun talaði um Menntun í þágu lýðræðis og Ólafur Páll Jónsson lektor Kennaraháskóla Íslands fjallaði um Lýðræði, menntun og virka þátttöku. Pallborði og umræðum stjórnaði Þóra Kristín Ásgeirsdóttir fréttamaður. Af orðum fundarmanna mátti greina þá staðreynd að umræða um lýðræði á Íslandi á sér litla hefð og brýnt að henni sé framhaldið.    
Nánari upplýsingar um bókina og bókin sjálf er á eftirfarandi slóð  www.nordvux.net/page/35/aktivtmedborgarskap.htm
Anna Vilborg Einarsdóttir
E-post: anna(ät)frae.is
Island

Heimasíða Leiknar, samtaka fullorðinsfræðsluaðila á Íslandi

Þann 16. nóvember sl. var heimasíða Leiknar, samtaka fullorðinsfræðsluaðila á Íslandi www.leikn.is opnuð formlega. Á heimasíðunni eru upplýsingar um samtökin og samþykktir þeirra, félagsaðila samtakanna og stjórn. Á heimasíðunni er lokaður samskiptavettvangur, þ.e. innra net fyrir félagsaðilana. Í náinni framtíð verður heimasíðan einnig á ensku.
Leikn er sameiginlegur vettvangur aðila í fullorðinsfræðslu á Íslandi og málsvari þeirra gagnvart stjórnvöldum. Tilgangur samtakanna er að efla fræðslu fullorðinna á Íslandi. Samtökin vilja stuðla að virkri umræðu um sí- og endurmenntun, auka upplýsingamiðlun og samskipti og samstarf milli fullorðinsfræðsluaðila og stjórnvalda annars vegar og efla erlend samskiptiá sviði fullorðinsfræðslu hins vegar. Rétt til aðildar að samtökunum eiga fræðsluaðilar eða frjáls félagasamtök sem hafa það meginhlutverk að bjóða fræðslu fyrir fullorðna, starfa til almannaheilla á samfélagslegum grunni (nonprofit), eru sjálfstæðir rekstraraðilar og starfa utan hins almenna skólakerfis.
Sjá heimasíðuna www.leikn.is.
Anna Vilborg Einarsdóttir
E-post: anna(ät)frae.is
Norge

25 milljónir norskra króna til grunnfærni í atvinnulífinu

Með fyrirvara um samþykki Stórþingsins, er lýst eftir umsóknum um styrki fyrir árið 2008 til verkefna sem miða að eflingu grunnfærni starfsfólks í einka- og opinberum fyrirtækjum. Upphæðin er 25 milljónir norskra króna (um 290 mill. ísl. kr.) og er umsóknarfresturinn til 15. janúar 2008. Styrkir fást til þjálfunar í lestri, skrift, reikningi og upplýsingatækni.
Skv. venju hefur upplýsingum um þessa verkefnastyrki verið fylgt eftir með upplýsingafundum um allt land. Í ár hefur tveimur sérstökum frumkvöðlaverkefnum verið bætt við upplýsingafundina:
a) Átaki, sem snýr að vöruviðskiptum, þ.e. dreifingu upplýsinga og greinaskrifum í fagtímarit.
b) Heimsóknum, svo nefndra hvatningarráðgjafa til fyrirtækja, sérstaklega smárra og meðalstórra fyrirtækja.  
Markmiðið með verkefnunum tveimur er að fá fleiri og betri styrkumsóknir frá smáum og meðalstórum fyrirtækjum og frá atvinnugreininni Vöruviðskipti. Þetta eru fyrirtæki sem hafa fengið litla sem enga kynningu innan BKA (Basis kompetanse i arbeidslivet). Þar að auki hefur lestrar- og skriftarþjálfun fengið lítið vægi í stefnu BKA. Öll áhersla hefur verið á grunnfærni í upplýsingatækni. Sú áhersla heldur áfram en um leið er æskilegt að bjóða upp á námskeið í lestri og skrift eða tengja upplýsingatækniþjálfun saman við lestrar- og skriftarþjálfun.     
Hvatningarráðgjafarnir eru aðallega sóttir til opinberra fullorðinsfræðsluaðilum. Það er því í þeirra þágu að markaðssetja tilboðin. Um leið og þeir upplifa þörf, margra fyrirtækja í atvinnurekstri í einu, eiga þeir auðveldara með að finna lausnir fyrir lítil fyrirtæki sem hafa ekki bolmagn til að bjóða starfsfólki sínu upp á námstilboð. Hvatningarráðgjafarnir munu líka fylgja upplýsingaátakinu gagnvart vöruviðskiptunum eftir með fundum, augliti til auglitis. Nóvember er öflugur mánuður hvað varðar alla upplýsingamiðlun hjá BKA.
E-post: Ellen.Stavlund(ät)vofo.no
Mer om: baskunskaper
Norge

Jafnréttisátak í háskólasamfélaginu

Jafnrétti í háskólasamfélaginu er ekki nógu gott. Aðeins 17% kvenna gegna prófessorsstöðum
Þekkingarmálaráðuneytið hefur af þeim sökum sett á stofn ný jafnréttisverðlaun að upphæð 2 milljónir norskra króna. Verðlaunin eiga að ganga til þeirrar stofnunar sem framkvæmt hefur besta jafnréttisátakið. Öllum háskólum, framhaldsskólum og rannsóknastofnunum er boðið að senda inn umsókn með framkvæmdaáætlun um jafnréttisátak. Jafnréttisverðlaunin verða afhent á Tengslaráðstefnu í janúar á næsta ári.
E-post: Ellen.Stavlund(ät)vofo.no
Norge

Viðurkennd áætlun að grunnfærniþjálfun fullorðinna

Vox hefur lagt fram tillögur að áætlun, með áfangalýsingum og færnimarkmiðum, um fullorðinsfræðslu í lestri, skrift og reikningi ásamt tölvum.
Fullorðnir nemendur í Noregi öðluðust árið 2002 rétt til fræðslu í greinum grunnskólans. Framboð á námi við hæfi fullorðinna í þessum greinum er í raun lítið.  Árið 2006 fékk Vox það verkefni frá Þekkingarmálaráðuneytinu að leggja fram tillögur að áfangalýsingum og færnimarkmiðum fyrir fullorðna í lestri, skrift, reikningi og tölvum. Markhópurinn, sem býðst þjálfun skv. færnimarkmiðum áætlunarinnar, er fullorðnir sem hafa þörf fyrir að efla grunnfærni sína án þess að fara í gegnum allt námsefni grunnskólans. Þjálfunina er hægt að laga að ólíku kennsluumhverfi, m.a. getur hún farið fram á vinnustöðum. 
Þú getur lesið meira um þetta á slóðinni: www.vox.no
E-post: Ellen.Stavlund(ät)vofo.no
Sverige

Nýtt stjórnskipulag stofnana menntamála tekur gildi 1. júli 2008

Skipulagið felur í sér að ábyrgð ríkisins á málefnum skólakerfisins verður komið fyrir í þremur nýjum skólastofnunum með skýr og afmörkuð verkefni: skólaeftirlit, yfirstjórn skólamála og sérkennslumál.
Ný sjálfstæð stofnun fyrir innlent eftirlit, Skólaeftirlitið verður sett á stofn. Verkefni hennar munu felast í eftirliti með námi og kennslu og annarri skyldri eftirlitsstarfsemi. 
Ný stofnun, Skólastofnun, verður sett á laggirnar. Hún fer með yfirstjórn skólamála til að mynda eftirfylgni og mat á opinbera skólakerfinu o.fl. ásamt ábyrgð á áætlanagerð, samræmdum prófum, leyfisveitingum einkaskóla og stjórnun ríkisframlaga. Ýmis stuðningsverkefni, t.d. almenn skólaþróunarverkefni sem njóta forgangs á landsvísu, verða færð til stofnunarinnar.  
Ný stofnun, Stofnun sérkennslumála, verður sett á laggirnar vegna mála er varða börn, unglinga og fullorðna með sérþarfir. 
Skólaþróunarstofnun Myndigheten för skolutveckling (MSU) og Miðstöð sveigjanlegs náms (Nationellt centrum för flexibelt lärande) verða lagðar niður. Ýmis kjarnaverkefni, svo sem þróunarverkefni í forgangi og styrkir til verkefna í upplýsingatækni færast til Skólastofnunar. Samanlagt færast ríflega 40% af verkefnum Skólaþróunarstofnunar (MSU) og um 15% af verkefnum Miðstöðvar sveigjanlegs náms (CFL) til annarra ríkisstofnana. Verkefnum, sem ekki eiga lengur að heyra undir ríkisvaldið, verður hætt.   
Markmiðið með tillögunum er skýrt stjórnskipulag sem eykur yfirsýn yfir stofnanir menntamála í því augnamiði að auka gæði og tryggja jafnan rétt í sænskum skólum. Tillagan felur í sér að menntastofnunum fækkar og að verkefnin verða hnitmiðaðri sem gerir það að verkum að skipurit menntamála verður skýrara og nær borgurunum. Þátttaka ríkisvaldsins verður minni og stjórnun auðveldari.
Sjá á slóðinni
www.regeringen.se/sb/d/9421/a/91310;jsessionid=a8-0IFq9dkVf
E-post: Nils.Friberg(ät)kristianstad.se
Sverige

Ný sameinuð sænsk fullorðinsfræðslustofnun

Fullorðinsfræðsla í Svíþjóð hefur verið sett undir einn hatt í nýrri stofnun. Föstudaginn 19. október var hin nýja stofnun sett á laggirnar VIS, Riksförbundet Vuxenutbildning i samverkan, með sameiningu Rvux och LärVux.
Meginmarkmið VIS er efla möguleika fullorðinna til símenntunar með því að:
• örva kennsluþróun
• gæta hagsmuna fullorðinsfræðsluaðila á þingi, í ríkisstjórn og hjá yfirvöldum og stofnunum
• auka gæði í fullorðinsfræðslu
• bæta grunngerð og aðgengi ásamt sveigjanleika í gerð og innihaldi
• örva samstarf á öllum sviðum
• greiða aðgang að færniþróun sem er til fyrirmyndar
• örva alþjóðlegt samstarf
• miðla upplýsingum til félaga samtakanna
Sjá nánari upplýsingar www.rvux.se
E-post: Nils.Friberg(ät)kristianstad.se
Sverige

Gæðastefna alþýðufræðslunnar

Fimmtudaginn 15. nóvember afhenti alþýðufræðslan Alþýðufræðsluráðinu gæðaskýrslu ársins. Allir lýðháskólar og námssamtök skilaði sínum skýrslum á tilskildum tíma.
Upplýsingunum verður safnað saman og þær greindar af Alþýðufræðsluráðinu. Ráðið setur saman eina lokaskýrslu sem kemur til með að gefa nýja mynd af gæðastarfi alþýðufræðslunnar og hvernig alþýðufræðslan stendur gagnvart markmiðum og framkvæmdum sem ríkisvaldið hefur lagt til. Þessi lokaskýrsla getur jafnvel orðið fyrirmynd að þróun gæðastarfs. Skýrslunni á að skila til Menntamálaráðuneytisins þann 22. febrúar 2008. Í apríl 2008 mun lokaskýrslan í endanlegri útgáfu verða kynnt námssamtökunum og lýðháskólum á fjölda ráðstefna. 
E-post: Nils.Friberg(ät)kristianstad.se
Mer om: folkbildning
Åland

Nýtt raunfærnimat á Álandi

Innan tíðar mun álenska landsstjórnin setja af stað verkefni um raunfærnimat. Verkefnið Raunfærnimat á Álandi er styrkt af Evrópusambandinu og er sett af stað í því augnamiði að útbúa raunfærnimatskerfi á Álandi. Starfsnámsmiðstöð Álands og fræðslumiðstöðin Navigare ásamt fræðslumiðstöðvum á Íslandi, Noregi og Svíþjóð eru þátttakendur í svo nefndu þematengdu tengslanetaverkefni sem hefur fengið heitið LärVal-Norden (Raunfærnimat á Norðurlöndunum) og er það styrkt af sjóðnum NordPlus-fullorðnir. Í verkefninu skiptast þátttakendur á reynslusögum og  álitamálum er varða starfsmenntun og raunfærnimat. Reynslan, sem fæst úr báðum þessara verkefna, mun nýtast þegar við hönnun álensks matskerfis á raunfærni.
E-post: Vivve.Lindberg(ät)living.ax
nmr_is


Fyrirsagnir 29.11.2007


NORRÆNA RÁÐHERRANEFNDIN
Vinnustaðanám: forsendur, stefnumörkun/aðferðir og árangur


NVL
Möguleikar fullorðinna á starfsmenntun á Norðurlöndunum


DANMÖRK
Frumkvöðlaátakið – nýsköpun og framkvæmdir

Gagnabanki um þróunarverkefni

Náms-og starfsráðgjafar geta nú hafist handa við að styrkja raunfærnimat í alþýðufræðslu


FINNLAND
Sterkur háskóli á Austur-Finnlandi


ÍSLAND
Frumvarp um símenntun í undirbúningi

Virk samfélagsþátttaka frá sjónarhóli símenntunar

Heimasíða Leiknar, samtaka fullorðinsfræðsluaðila á Íslandi


NOREGUR
25 milljónir norskra króna til grunnfærni í atvinnulífinu

Jafnréttisátak í háskólasamfélaginu

Viðurkennd áætlun að grunnfærniþjálfun fullorðinna


SVÍÞJÓÐ
Nýtt stjórnskipulag stofnana menntamála tekur gildi 1. júli 2008

Ný sameinuð sænsk fullorðinsfræðslustofnun

Gæðastefna alþýðufræðslunnar


ÁLAND
Nýtt raunfærnimat á Álandi