Ísland tekur við formennsku í norrænu ráðherranefndinni 1. janúar 2009

 

 
Styrkur norræns samstarfs felst meðal annars í þeim sveigjanleika að vinna má þvert á fagsvið. Þess vegna ákvað menntamálaráðuneytið að leggja fram sameiginlega formennskuáætlun á sviði vísinda, menningar og mennta undir kjörorðinu Menntun, sköpunarkraftur og frumkvæði á tímum hnattrænna breytinga. Með því vill ráðuneytið leggja áherslu á að markmiðum okkar verður ekki náð nema í samstarfi þessara þriggja fagsviða og annarra þvert á fagleg mörk. Hæfni Norðurlanda til aðlögunar, nýsköpunar og frumkvæðis til að mæta breytingum á sér skýrar menningarlegar rætur. Að auki gegnir þverfagleg samvinna og tengsl listsköpunar og menningar við atvinnulífið lykilhlutverki þegar fjallað er um norræna nýsköpun. Samkennd Norðurlanda og áratugareynsla í árangursríkri samvinnu byggist á sameiginlegum gildum og menningarlegum grunni sem mikilvægt er að hlúa að. Í ljósi þess munu Íslendingar leitast við að sameina áherslur sínar á sviði vísinda, menningar og mennta undir formerkjum menntunar, sköpunarkrafts og menningarlegrar hæfni til nýsköpunar og frumkvæðis. Þá munu Íslendingar fylgja eftir norrænni málstefnu og stuðla að átaki til að auka áhuga á menningar- og málskilningi milli landanna með það fyrir augum að auka samkennd milli þeirra.
Formennskuáætlun menntamálaráðuneytis á sviði vísinda, menningar og mennta hefur verið gefin út á íslensku, dönsku og finnsku og má finna á vef menntamálaráðuneytis www.menntamalaraduneyti.is