Á Norðurlöndum er vinnuaflið talið ein mikilvægasta auðlind þjóðanna, vinnuaflið hefur afgerandi áhrif á velferð og framlegð sem aftur erum mikilvægir þættir hagkerfisins. Á síðustu árum, allt þar til að heimsfaraldurinn brast á, hafa Íslendingar notið aukins hagvaxtar, atvinnuþátttaka hefur verið mikil og atvinnuleysi lítið. Hátt atvinnustig og aukin framlegð eru afgerandi fyrir velferðina. Sveigjanlegur vinnumarkaður, mikil atvinnuþátttaka kvenna og ungmenna skipta þar miklu.
Sveigjanlegur framhaldsskóli
Íslensk ungmenni hafa um áraraðir notið þess að hafa tækifæri til þess að stunda vinnu með námi. Menntun á framhaldsskólastigi er sveigjanlegri á Íslandi en í nágrannalöndunum. Þannig geta ungmenni deilt náminu á fleiri ár en þau þrjú sem skipulagið gerir ráð fyrir. Ef þau hætta námi hafa þau tækifæri til þess að fá vinnu sem ófaglært starfsfólk.
Fjórða iðnbyltingin
En Íslendingar standa frammi fyrir sömu áskorunum og grannar þeirra á Norðurlöndunum, og varða stafrænar umbreytingar og öra tækniþróun. Rætt er um fjórðu iðnbyltinguna, eða iðnað 4.0 með vélmennum, sjálfvirknivæðingu og gervigreind sem mun leiða til þess að sum störf breytast, önnur hverfa og ný verða til. Á íslenskum vinnumarkaði reikna menn með að 45 % starfa muni verða fyrir áhrifum, breytast mikið á næstu árum eða hverfa alveg. Þar að auki munu sex af hverjum tíu taka talsverðum breytingum. Þau sem verða harðast úti við breytingarnar eru ófaglærð, með litla menntun að baki.
Menntakvika, ráðstefna um menntarannsóknir
Nú á haustdögum stóð menntavísindasvið Háskóla Íslands fyrir árlegri ráðstefnu sinni um menntarannsóknir. Á tímum heimsfaraldursins voru alls 340 fyrirlestrar í 87 málstofum haldnir á netinu. Meðal þeirra sem kynntu rannsóknir sínar var Guðbjörg Vilhjálmsdóttir, prófessor í náms- og starfsráðgjöf við félagsvísindasvið Háskóla Íslands. Guðbjörg hefur í samstarfi við alþjóðlegt teymi fræðimanna rannsakað aðstæður ungs fólks á aldrinum 18 – 29 ára sem hefur hætt námi en er í starfi Þau hafa færri tækifæri til menntunar og starfa og það hefur áhrif á líf þeirra og lífsafkomu. Á síðustu árum hefur Guðbjörg í samstarfi við alþjóðlegt teymi fræðimanna unnið að eigindlegri rannsókn á ungu fólki en nú hefur hún beitt megindlegri rannsóknaraðferð til þess að kanna viðhorf þeirra til starfa, starfsvilja og starfsferils, einkum í ljósi þeirra breytinga sem nú einkenna atvinnulífið.
Dialog hafði samband við Guðbjörgu til þess að forvitnast nánar um rannsókn hennar.
Viðhorf til starfsvilja meðal ungmenna
– Fyrir liggja margar rannsóknir á þeim sem tilheyra NEET hópnum (e. Not in Employment Education or Training) en við vitum afar lítið um þennan hóp, það er að segja þá sem hætt hafa námi er eru í starfi. Þess vegna ákvað ég að rannsaka hann nánar og lagði fyrir spurningakönnun undi yfirskriftinni: Viðhorf ungs og lítt menntaðs fólks til starfa: Starfsvilji, starfsskynjun, aðlögunarhæfni á starfsferli. Í febrúar á þessu ári lagði ég nokkrar spurningar fyrir 154 einstaklinga á aldrinum 20-29 ára, sem allir höfðu verið í starfi síðustu sex mánuði, um viðhorf þeirra til starfa og hvort þau sjá fram á að geta bætt sína stöðu eða aðlagað sig að breytingum og hvort þeim þætti störfin sem þau sinna mannsæmandi.
Grundvallar kenningar
Guðbjörg byggir rannsóknir sínar á fræðikenningum tveggja þekktra fræðimanna á þessu sviði. Sá fyrri er doktor David Blustein. Hann skrifar í bók sinni um starfssálarfræði: The Psychology of Working Theory um virðingu vinnunnar í lífi fólks. Blustein telur mikilvægt að kenningar ná til allra, ekki aðeins þeirra sem hafa langa menntun að baki og hafa góðan aðgang að ráðgjöf um starfsferil heldur jafnframt til þeirra sem minni menntun hafa og mæta hindrunum hvað varða ráðgjöf og nám. Samkvæmt kenningum Blustein eru það mannréttindi fólks að vinna, allir eiga að hafa tækifæri til atvinnu til þess að geta framfleytt sér og sínum. Það hafi mikla þýðingu fyrir fólk og samfélög að fólk hafi mannsæmandi vinnu.
Hinn fræðimaðurinn er doktor Mark Savickas sem skrifar í kenningum sínum um ráðgjafarfræði eða Career Construction Theory, um hve mikilvægt er í ráðgjöf að beina sjónum að samsemd einstaklingsins og aðlögunarhæfni. Samsemdin hjálpar fólki að sjá hvað það ætlar sér, hvar það er statt og hvert það vill fara, en í aðlögunarhæfninni er verið að endurmeta söguna í hvert sinn. Í aðlögunarferlinu fer í gang sálfélagslegt ferli, hvaða styrk býr einstaklingurinn yfir til þess að mæta breytingum á vinnu eða námi. Fjórir styrkleikar aðlögunarhæfni á náms- og starfsferil eru:
- Umhugsun, horfa til framtíðar með jákvæðum huga – vera umhugað um framtíð sína.
- Stjórn, vilji ákvörðun, áætlanagerð, nýta tengslanetið og sjálfsstjórn.
- Forvitni, hæfileikinn til að kanna ný tækifæri og víkka sjóndeildarhringinn.
- Sjálfstraust, sjálfstrú, bjartsýni og iðjusemi.
Mannsæmandi vinna
Blustein spyr: Hvað með þá sem takmarkað val? Vinnan þarf að uppfylla þrenns konar þarfir í lífi hverrar persónu:
Vinnan til þess að lifa af (survival), til þess að styrkja tengsl við aðra (social connection) og vinna sem sjálfsákvörðun (self-determination).
Fram til þessa hefur áherslan verið lögð á síðast þáttinn. Þar að auki er byggir Guðbjörg á skilgreiningu Alþjóða vinnumálastofnunarinnar um mannsæmandi vinnu.
Mannsæmandi vinna
Felur í sér rétt sérhvers manns til þess að hafa tækifæri til þess að afla sér lífsviðurværis með vinnu sem er skapandi og veitir sanngjarnt kaup, öryggi á vinnustað, félagslega vernd fyrir fjölskyldur, betri tækifæri til persónulegs þroska og án aðgreiningar, frelsi til að tjá áhyggjur sínar og rétt til þess að gerast félagi í stéttarfélögum og taka þátt í ákvörðunum er varða líf þeirra og tryggja konum og körlum jöfn tækifæri og jafna meðferð.
Heimild: Alþjóðlega vinnumálastofnunin (ILO, International Labour Organization)
Sameiginleg einkenni
– Unga fólkið á það sameiginlegt að hafa hætt námi að loknum grunnskóla og á vinnumarkaði bjóðast þeim einhæf störf. Þau vinna mikið og flest sem ófaglærður vinnukraftur og við þjónustu. Meðal þeirra ástæðna fyrir því að þau hættu í skóla nefna þau: Skólaþreytu, skort á áhuga og fátækt. Það er í samræmi við niðurstöður annarra kannanna á þessu sviði, segir Guðbjörg Vilhjálmsdóttir, prófessor.
Mismunur á stúlkum og drengjum
– Það et útlit fyrir að drengirnir hafi önnur tækifæri en stúlkurnar, þeir hafa tækifæri til þess að fá flóknari störf sem tengjast vélum og viðhaldi, í landbúnaði og líkum greinum. Það gæti skýrt hvers vegna fleiri konur leita í menntun á framhalds- og háskólastigi til þess að fá vinnu sem krefst meiri hæfni, segir Guðbjörg.
Guðbjörg kannaði meðal annars hvort unga fólkinu finnist það vinna mannsæmandi vinnu, hugtak sem Alþjóðlega vinnumálastofnunin hefur skilgreint. Í því felst að fólk hefur ákveðin réttindi, það geti þroskast og þróast og ekki sé munur á réttindum kvenna og karla.
Eiga erfitt með að skipuleggja sig
– Mér kom á óvart að konunum finnst þær síður vera í mannsæmandi störfum. Hvað varðar skipulagningu starfa í framtíðinni stendur þessi hópur verr að vígi en aðrir Íslendingar. Könnunin sýndi að einstaklingum í þessum hópi er staða sín síður ljós og þeim finnst erfitt að meta hvað þau geta gert til þess að bæta stöðu sína fyrir framtíðina, segir Guðbjörg Vilhjálmsdóttir.
– Þeim finnst erfitt að skipuleggja næstu skref, auk þess að þau skortir stuðning því þau standa höllum fæti félagslega. Þau dreymir um annars konar störf en þau sem þau höfðu þegar könnunin var gerð. Í ljós kom að ef engar hindranir væru í vegi myndu þau flest vilja vera í störfum sérfræðinga og tæknifólks. Þau sem eru í yngri kantinum hafa meiri löngun til breytinga, meira að segja að halda áfram námi. Jafnframt töldu þau auðveldara að snúa aftur í framhaldsskólann. Því fleiri ár sem liðin voru liðin síðan þau hættu námi, því ólíklegar töldu þau að þau ættu eftir að hefja nám að nýju. En 71 prósent af þeim sem ætluðu aftur í nám töldu að þau myndu ljúka því.
Þurfa fjárhagsstuðning
Guðbjörg Vilhjálmsdóttir telur að þau sem tilheyra þessum hópi ófaglærðra þarfnist stuðnings til þess að snúa aftur í nám við hæfi.
Hvernig sérðu fyrir þér að hægt verði að veita þeim stuðning?
– Þetta fólk stendur höllum fæti, eins og rannsóknin sýnir. En þau sem ætla sér aftur í nám telja að þau muni ljúka því. Þetta er vísbending um að það eru ekki námslegar hindranir í vegi. Ég myndi telja að þau þurfi fjárhagslegan stuðning, beinlínis vegna fátæktar eða að þau voru orðin þreytt á að hafa ekki ráð á hlutum (til dæmis bíl eins og félagarnir), það þarf öfluga náms- og starfsráðgjöf sem gengur út frá aðstæðum hópsins, og í þriðja lagi þarf öfluga menntastofnun – framhaldsskóla fyrir fullorðna, segir Guðbjörg Vilhjálmsdóttir.
Höfum við ráð til þess að nálgast þennan hóp?
– Ég held að við gætum gert það í samstarfi við atvinnurekendur og lánasjóðinn. En að lokum er rétt að taka fram að við vitum að störfum sem henta þessum hópi mun fækka í framtíðinni, sem þýðir að við þurfum að bregðast öðruvísi við þörfum þessa hóps. Þau geta vel lært, en þau þurfa stuðning til að láta draumana rætast, segir Guðbjörg Vilhjálmsdóttir, prófessor í náms- og starfsráðgjöf.
Ráðgjöf, nám fullorðinna
Hlusta má á fyrirlestur Guðbjargar Vilhjálmsdóttur á Menntakviku hér