Þeir sem afplána í norrænum fangelsum sinna daglegum verkefnum og hafa tækifæri til náms. Margir hafa hætt í skóla og hafa kannski slæma reynslu af skólanum. Þegar starf og skóli, verk og fræði tengjast nánar getur það verið hvetjandi og eflt námið. Lítið dæmi um þetta er úr danska fangelsinu Kragskovhede. Þegar kennari og verkstjóri vinna saman, getur vinnan við að stafla eldiviði á bretti samtímis orðið að stærðfræðidæmi. Þeir reikna út hve mörgum rúmmetrum af viði hefur verið staflað upp á vinnutímanum.
Vinnuhópurinn hefur skilað af sér
Meðal markmiða nets NVL um nám í fangelsum er eftirfarandi: „Bjóða þarf öllum föngum í norrænum fangelsum upp á daglega starfsemi sem getur eflt færni þeirra og hæfni.“ Fyrir tveimur árum kom tengslanetið á fót vinnuhópi sem gera átti tillögur um aðgerðir til að efla samstarf skóla og vinnu, það er að segja kennara og verkstjóra. Miðlun reynslu og þekkingar var miðlægur þáttur og vinnuhópnum var ætlað að leggja fram tillögur sem útfæra mætti í daglegu starfi. Nú hafa tillögur þeirra verið kynntar í bæklingi sem dreift verður til fangelsa um öll Norðurlöndin. Bæklingurinn, sem til er á flestum Norðurlandamálum, veitir innblástur með góðum dæmum þar sem rauði þráðurinn er samvinna og sköpun.
Skapandi samstarf
– Verkefni okkar felst í að örva gott og skapandi samstarf kennara og verkstjóra þannig að þeir verði meðvitaðir um eigin starfshætti. Með því að gera litlar breytingar geta þeir skapað meira nám og um leið eflt hæfni fanga, segir Heidi Carstensen, sem er deildarstjóri í Kragskovhede fangelsinu á Jótlandi. Hún hefur leitt starfshópinn. Í fangelsinu þar sem hún vinnur, starfa kennararnir í fangelsinu og því góðar forsendur þess að þróa frekar samstarf milli námsgreina og starfs, finna vinnubrögð sem örva nám.
Fuglakassar
Fuglakassi kann að virðast einfaldur hlutur, en hann getur leitt til þroskandi náms. Carstensen segir:
– Fyrst fórum við með fangana inn í skóginn til að kanna hvaða fuglar væri þar að finna. Við teiknuðum svo mismunandi fuglakassa í stærðfræðitímum og fórum með teikningarnar til verkstjórans á trésmíðaverkstæðinu. Þar var viði úr skóginum safnað, hann sagaður niður og settur saman í fuglakassa. Að lokum fórum við með fangana út í skóg og fundum réttu staðina til að setja fuglakassana upp.
Nærri raunveruleikanum
Fangarnir geta valið úr ýmsum fræðslutilboðum og námskeiðum, allt eftir getustigi og áhuga. – Við viljum færa nám og námsgreinar í fangelsinu eins nálægt raunveruleikanum og hægt er fyrir fangana, segir Oddvar Haaland skólastjóri í framhaldsskólanum í Mandal. Hann hefur tekið þátt í starfi vinnuhópsins. Skólinn sér um kennslu fanganna í Agder fangelsinu með samtals 300 föngum. Í norskum fangelsum er bilið á milli skóla- og fangelsisfræðslu greinilegra en í dönskum fangelsum. Kennararnir koma í fangelsið frá framhaldsskólanum á staðnum. Kosturinn við þetta fyrirkomulag telur Haaland að samband náist við skólaumhverfið og það sem gerist utan fangelsisins.
Ávinningurinn
Ávinningur þess að þróa samstarf skóla og vinnustaða er alveg skýr. Aukið samstarf kennara og verkstjóra mun skapa betra námsumhverfi sem eflir námshvata þeirra sem afplána, sem aftur leiðir til færni og þekkingar einstaklinganna, að mati bæði Carstensen og Haaland. Þeir leggja áherslu á að samstarfið taki einnig til fanga. Hverfa verður frá gamla viðhorfinu um “eftirlit”.
Danska fangelsismálastofnunin býður upp á fjölda námsleiða og námskeiða í fangelsum, þar á meðal almenna fullorðinsfræðslu, undirbúningsnám fyrir fullorðna, vinnumarkaðsnám og starfsnám. Hvað varðar starfsmenntun geta verkstæðin í fangelsunum verið góðir starfsnámsstaðir, til dæmis fyrir ræstingar, matreiðslu og endurhæfingarvinnu.
Fagbréf í matreiðslu
Í fangelsinu í Agder í Noregi er sérstakt eldhús fyrir nám í matvæla- og veitingagreinum. Námið er samsett af sjö einingum þar sem kjarnagreinar eru samþættar í einingunum og hægt er að taka fagprófið í fangelsinu. Fram til þessa hafa fimm einstaklingar hlotið fagbréf í matreiðslu. Mikil eftirspurn er eftir matreiðslumönnum sem hefur í för með sér að allt útlit til atvinnutækifæra er gott.
Endurbætur og verknám
Starfshópurinn hefur heimsótt fangelsi á Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Í Finnlandi er ráðgert að fangar geti tekið hluta af verknámi í fangelsi, öðlast hlutaréttindi og hugsanlega lokið námi að lokinni afplánun. Til þess að kennslan virki hvetjandi er mikilvægt að fangelsið leggi áherslu á gott námsumhverfi þar sem kennarar, verkstjórar og fangelsisstjórn skipuleggja saman og dreifa ábyrgð. Í nokkrum greinum er hægt að taka tilheyrandi starfsnám í fangelsi. Í einu af finnsku fangelsunum er með málaraverkstæði sem gefur góð tækifæri til starfsreynslu. Fangar geta þannig tekið þátt í endurbótahópnum sem sinna viðgerðum og viðhaldi í fangelsinu. Þetta veitir fjölhæfa og góða reynslu sem kennari og verkstjóri skipuleggja saman.
Starfsnám í garðyrkju
Í einu sænsku fangelsi hefur garðyrkjustöð verið byggð með það að leiðarljósi að veita tækifæri til starfsnáms í garðyrkju. Kennari og verkstjóri vinna saman að þjálfuninni, bæði bóklegri og verklegri. Einnig er í boði að taka bóklega hlutann í fjarnámi og þá ber verkstjórinn ábyrgð á verklega hluta námsins. Í garðyrkjustöðinni er einnig tækifærði til plöntutilrauna. Fangarnir skipuleggja til dæmist tilraunir með mismunandi hitastig eða ólík birtuskilyrði. Síðan þarf að skrifa skýrslu um árangurinn. Tilraunir af þessu tagi eru í samstarfi kennara og verkstjóra.
Hvernig á að bera sig að?
Í möppunni starfshópsins eru góð ráð fyrir fangelsi sem vilja þróa þjálfun og starfsreynslu fanga. Byrja skal á hugmynd, huga að því með hverjum vinna skal og skipuleggja næsta skref, segir í bæklingnum. Markmið breytinga verður að þróa námsumhverfið þannig að það örvi nám og efli hvatningu til náms fyrir vistmenn. Þetta opnar leið fyrir nýja færni og þekkingu. Þannig verða fangarnir líka betur í stakk búnir til að fara aftur út í samfélagið að afplánun lokinni.
Starfsfólk fangelsa og kennarar
Í vinnuhópnum sem nú hefur lokið tveggja ára verkefni sátu kennarar, rektorar og stjórnendur fangelsa á Norðurlöndum:
Danmörk: Heidi Carstensen, stjórnandi iðju í fangelsinu í Kragskovhede
Finnland: Satu Rahkila, sérfræðingur í stjórn Fangelsismálastofnunar og Renja Kirsi, námsráðgjafi í Riihimäki fangelsinu
Ísland: Auður M. Guðmundsdóttir, verksstæðisformaður í fangelsinu á Hólmsheiði og Bryndís Jónsdóttir, verkstæðisformaður í fangelsinu á Litla-Hrauni
Norge: Oddvar Haaland, rektor framhaldsskólann í Mandal og ber ábyrgð á kennslu í Agder fangelsinu
Svíþjóð: Svante Hellman, framleiðslustjóri við Mariefred stofnunina og Susan Lindahl-Holmberg, kennari við Tygelsjö stofnunina.